Félag í eigu Péturs Stefánssonar, fjárfestis í Lúxemborg, hefur keypt heilt fjölbýlishús í Jaðarleiti. Það er ný gata sunnan við Útvarpshúsið í Efstaleiti í Reykjavík. Félagið borgaði um 800 milljónir fyrir húsið. Þar verða samtals 18 lúxusíbúðir.
Kaup félagsins, C4 ehf., eiga þátt í að seldar hafa verið 47 af 71 íbúð í Jaðarleiti 2-8. Verð óseldra íbúða er allt að 100 milljónir, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Félagið Skuggi byggir íbúðirnar í Jaðarleiti. Þær eru í fjórum fimm hæða fjölbýlishúsum. Fram hefur komið að Skuggi keypti lóðir undir alls 361 íbúð á svæði RÚV á 2,2 milljarða, eða um sex milljónir á íbúð.
Heimild: Mbl.is