
Leikskólar á Reykjavíkursvæðinu eru margir hverjir illa farnir og mikil þörf er á viðhaldi bæði á lóðum og húsum. RÚV greindi frá þessu. Talað var við nokkra leikskólastjóra á svæðinu sem segja margir hverjir að skólalóðin sé í slæmu ástandi. Þá sé húsnæði í slæmum málum. Alltaf fáist sömu svörin; að það vanti fjármagn.
Mygla og mölflugur
Leikskólinn Kvistaborg í Fossvogi hefur glímt við alvarlegt mygluvandamál undanfarið. Þá hafði leikskólastjórinn, Guðrún Gunnarsdóttir, lengi óskað eftir því að húsnæði skólans yrði skoðað. Hún taldi að rakastig væri yfir mörkum þar inni.

Starfsfólk hafði tekið eftir flugunum á sveimi og sent þær í greiningu hjá Náttúrufræðistofnun. Mölflugur lifa á raka og myglu. Nú er búið að laga vandamálið hjá Kvistaborg. Foreldrar á Kvistaborg létu sitt ekki eftir liggja í umræðunni og óskuðu eftir úttekt á húsnæðinu. Beðið er eftir skýrslu um málið.
Börnin þurfa að njóta vafans
Magnús Már Guðmundsson situr í foreldraráði leikskólans en hann er jafnframt borgarfulltrúi Samfylkingarinnar. Hann segir í skriflegu svari til blaðamanns Vísis, að það sé mikilvægt að sinna viðhaldi á leikskólum borgarinnar.
„Foreldrar á Kvistaborg óskuðu eftir úttekt á húsnæðinu á sama tíma og við vonuðum það besta. Nú er að ganga hratt og örugglega til verka til að tryggja að leikskólastarf geti farið fram með eðlilegum hætti hér eftir í Kvistaborg sem er í grunninn mjög góður leikskóli. Það er ljóst að þegar kemur að viðhaldi á leikskólunum þarf að gera miklu betur. Börnin eiga alltaf að njóta vafans. Ég heimsótti í síðasta mánuði nokkra leikskóla og skólastjórnendur sögðu borgina gera margt vel en þegar kæmi að viðhaldi þyrfti einfaldlega að gera betur. Ég mun beita mér fyrir því,“ segir í svari Magnúsar.
Heimild: Visir.is