Home Fréttir Í fréttum Íbúar Rauðagerðis miður sín vegna framkvæmda

Íbúar Rauðagerðis miður sín vegna framkvæmda

273
0
Mynd: Mynd: Stígur Helgason - RÚV
Framkvæmdir hófust á nýjan leik við Rauðagerði í Reykjavík í gær, en íbúar hafa lýst yfir andstöðu gegn framkvæmdunum, telja þær brjóta í bága við lög og tóku til sinna ráða til að stöðva þær í síðasta mánuði.
Meðfram Miklubraut, við Rauðagerði, áformar Reykjavíkurborg að leggja göngu- og hjólastíg og reisa hljóðmön og þar standa einnig til framkvæmdir við forgangsrein fyrir Strætó.

„Framkvæmdaleyfi og önnur leyfi Reykjavíkurborgar og Vegagerðar vegna þessara framkvæmda voru ýmist ekki til staðar eða útrunnin,“ segir Björg Kristín Sigþórsdóttir, sem er talsmaður íbúa. „Við íbúar höfum óskað eftir því að sjá hæð manarinnar sem stendur til að reisa til samanburðar við hús okkar í Rauðagerði 45, 49, 51 og 53. Við teljum að mönin komi til með að skyggja á útsýni og sólarljós.“ Íbúar hafi verið með ýmsar raunhæfar tillögur um lausn málsins en lítið tillit hafi verið tekið til þeirra.

<>

„Við erum í áfalli yfir þessum framkvæmdum. Þetta snýst ekki um að vera í stríði við borgaryfirvöld gegn þeirra áformum um að byggja hjólastíga og göngustíga. Þetta snýst um að vinna þessar framkvæmdir með fólkinu og í sátt við íbúa. Það hefur því miður ekki verið gert.“

„Eintal en ekki samtal“

Reykjavíkurborg og Vegagerðin eru að stækka Miklubraut um 30% frá því sem nú er auk þess að fella 70 tré samkvæmt útboðsgögnum. Skipulagsstofnun hefur brugðist í þessu máli þar sem þeir samþykktu að framkvæmdin þyrfti ekki að fara í umhverfismat. Um er að ræða stofnbraut við eina stærstu götu landsins, Miklubraut. Mengun og hávaði munu aukast og umferð færist nær íbúum. Þetta segir í tilkynningu sem Björg sendi fréttastofu í dag.

Þá bendir hún á að lögum og reglugerðum um hljóðvist hafi ekki verið framfylgt í hverfinu. „Það er ósk allra sem búa í þessu hverfi að það náist markmið um hljóðvist og mengunarvarnir eins og lög gera ráð fyrir.“

„Reykjavíkurborg hefur nú hafið framkvæmdina þrátt fyrir að hún hafi ekki verið kynnt nægjanlega. Íbúar hafa ítrekað óskað eftir samráði og frekari kynningu en ekki fengið. Um hefur verið að ræða eintal frekar en samtal, því er nú miður,“ segir hún.

Heimild: Ruv.is