Íbúar við Grettisgötu hafa stórar áhyggjur af eignum sínum vegna framkvæmda við Vegamótastíg og Grettisgötu sem nú standa yfir vegna fyrirhugaðar byggingar fimm hæða hótels á lóðinni við Vegamótastíg 7-9. Í samtali við mbl.is segist íbúi í húsinu, sem er við hlið fyrirhugaðrar hótelbyggingar, að lítið sem ekkert hafi verið hlustað á umkvartanir og ábendingar íbúa í hverfinu. Þá sé mikið ónæði af framkvæmdunum auk þess sem íbúar hafi áhyggjur af ásýnd hverfisins og skertu útsýni.
Frétt mbl.is: Vegamótastígur 9 flyst á Grettisgötu
„Húsið okkar er gamalt , byggt í kringum 1930 og á klöpp sem er verið að bora í með risa borum. Húsið okkar titrar og skelfur. Við vitum ekki hvað það þolir mikið,“ segir íbúinn sem vill ekki láta nafn síns getið.
„Þessi bygging er ótrúlega umfangsmikil og há fyrir svona gamalt hverfi með lágum húsum í gömlum stíl,“ segir íbúinn, sem telur fyrirhugaða uppbyggingu hafa töluverð áhrif á ásýnd hverfisins. „Það mun skyggja verulega á húsið við hliðina sem við nágrannar búum í. Útsýni mun skerðast svo um munar og mikið skuggavarp mun skapast. Þetta mun svo sannarlega rýra eignir okkar og skerða lífsgæði.“
Þá óttast íbúinn einnig að ónæði muni skapast af ferðamönnum og bílaumferð og ekki síst af stórum veitingastað með næturopnun sem fyrirhugað er að verði á hótelinu. Að sögn íbúans voru framkvæmdir kynntar fyrir íbúum áður en ferlið fór í gang þar sem þeir höfðu möguleika til að andmæla eða láta í ljós sínar skoðanir. Á það hafi þó ekki verið hlustað.
Íbúar kærðu ákvörðun byggingarfulltrúa
„Öll þessi rök komum við með en það bara hefur ekki verið neitt hlustað á okkur, það er bara eins og við séum ekki til,“ segir íbúinn. „Það hefði mátt tala við okkur, það hefði mátt semja við okkur eða hafa okkur með í ráðum. “
Íbúar kærðu ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík í september í fyrra um að samþykkja byggingarleyfi fyrir flutningi einbýlishúss af lóðinni við Vegamótastíg 9 yfir á lóðina Grettisgötu 54b í Reykjavík og ákvörðun byggingarfulltrúa um að samþykkja byggingarleyfi fyrir hótelinu.
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála vísaði frá kröfu kærenda er varðar flutning hússins en felldi aftur á móti úr gildi ákvörðun byggingafulltrúa um að samþykkja byggingarleyfi fyrir byggingu á lóðum 7 og 9 við Vegamótastíg.
Heimild; Ruv.is