Home Fréttir Í fréttum Kennitöluflakk kostar tugi milljarða árlega

Kennitöluflakk kostar tugi milljarða árlega

61
0
Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins kynntu í dag sameiginlegar tillögur til að berjast gegn kennitöluflakki. Þeim sem verði uppvísir að kennitöluflakki verði bannað að eiga og reka hlutafélög og einkahlutafélög í allt að þrjú ár. Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir að brot af þessu tagi hafi aukist mikið og nemi tugum milljarða króna árlega.

Kennitöluflakki hefur verið lýst sem miklu samfélagsmeini síðustu ár. Það felur í sér að félag hættir starfsemi eftir gjaldþrot en rekstri þess er haldið áfram með nýrri kennitölu til að komast hjá sköttum og gjöldum. Tjón samfélagsins hleypur á milljörðum árlega og lendir á fyrirtækjum, ríkissjóði, launafólki og neytendum. Fyrirtæki bera helming tjónsins, samkvæmt ástralskri rannsókn, ríkissjóður þriðjung en starfsmenn fyrirtækjanna um tíu prósent.

<>

„Bara verið að reka menn út af í takmarkaðan tíma“

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir löngu tímabært að taka upp svipaða löggjöf og gert hefur verið annars staðar á Norðurlöndunum síðustu ár. „Alveg frá því í byrjun tíunda áratugar síðustu aldar hafa Norðurlöndin verið að innleiða þetta, Danir innleiddu þetta 2014.

Röðin er komin að okkur á Íslandi og ég held að við megum ekki vanmeta slagkraft þess að aðilar vinnumarkaðarins, SA og ASÍ, komi saman og kynni þessar tillögur þannig að það ríkir í raun algjör einhugur um þetta. Róttækt? Sjái þetta með sömu augum og við gerum.

Er með þessu verið að koma í veg fyrir að eigandi fyrirtækis sem sér fram á gjaldþrot geti flutt reksturinn á nýja kennitölu og haldið áfram án þess að borga skuldir? Við gerum skýran greinarmun á því, það er ekkert óeðlilegt við það að fyrirtæki verði gjaldþrota. Að sama skapi ef rétt endurgjald kemur fyrir eignir er ekkert óeðlilegt við það. En ef að ekkert eða verulegt vanmat á eignum á sér stað þá ertu farinn að dansa á þessari línu sem við viljum taka á.

En bara vel að merkja, gjaldþrot eru fullkomlega eðlilegur hluti af rekstri fyrirtækja, tillögur okkar snúa ekki að því heldur þeim sem viljandi reyna að sleppa frá skuldbindingum sínum og hafa jafnvel ákveðið það við stofnun fyrirtækisins að þeir muni ekki ætla að efna skuldbindingar fyrirtækisins. Við erum nýbúin að horfa á handbolta og fótboltaleiki, það er bara verið að reka menn út af í takmarkaðan tíma, ekki til eilífðar og ef menn vilja hafa rétt við síðar þá fá þeir annað tækifæri eins og er inntakið í samfélagssáttmála okkar,“ segir Halldór Benjamín.

Í tillögunum er lagt til að ríkisskattstjóra verði veitt heimild til að úrskurða kennitöluflakkara í atvinnurekstrarbann að fengnum úrskurði dómstóla. Bannið myndi ekki aðeins ná til skráðra stjórnenda heldur svokallaðra skuggastjórnenda. ASÍ hefur vakið athygli á þessari brotastarfsemi síðustu ár en það hefur litlu skilað og málið velkst um þingnefndum.

„Sjáum þessa aðila koma aftur og aftur“

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segist bjartsýnn á að ríkisstjórnin vilji bregðast við þessari einbeittu brotastarfsemi. „Við höfum verið að reka þetta eftirlit okkar, Einn réttur ekkert svindl, varðandi þá eftirfylgni kjarasamninga og verðum áþreifanlega vör við þetta að fyrirtæki eru að koma sér undan réttindum og verðmætum okkar félagsmanna við það að losa sig við kennitöluna og byrja upp og nýtt og sjáum þessa aðila koma aftur og aftur og þetta er sama brotastarfsemin. 2011 settum við fram mjög ítarlegar tillögur um það hvernig við töldum að ætti að grípa inn í þetta, þá tókst ekki að mynda samstöðu, hvorki á vinnumarkaði né við stjórnvöld.

Eigum við ekki að segja að það hafi tekist núna, bæði vegna þess að ég held að þetta hafi aukist mjög mikið, þetta er orðið milljarðatugir sem um ræðir. Ég held líka að það hafi tekist að fá samtalið í gang.

Það er búið að tala um það lengi að þetta sé eitt af okkar stærstu samfélagsmeinum og auðvitað búið að velkjast í kerfinu lengi tillögur um þetta, hvers vegna hefur ekkert gerst?

Það er alveg rétt, ég tók þátt í nefnd sem starfaði 1993, þá reyndar undir forystu núverandi skattstjóra sem að einmitt taldi ástæðu til að líta til þessara hluta, ég kann ekki skýringu annað en að það er búið að takast á um svona prinsipp atriði um að það megi ekki skerða nýsköpun og öll erum við sammála því en ég held að þessar tillögur endurspegli að minnsta kosti þá tilraun okkar til að sameinast um hvernig við gætum valdið straumhvörfum í þessum málum, við það að fara í gegnum umræðuna og takast á að einhverju leyti en sameinast um lausnir og vonandi gagnast það stjórnvöldum að taka það samtal áfram þannig að það gæti þá endann í einhvers konar frumvarpi fyrir Alþingi, vonandi sem fyrst,“ segir Gylfi.

Heimild: Ruv.is