Home Fréttir Í fréttum Vestmannaeyjar fá þriggja milljarða andlitslyftingu

Vestmannaeyjar fá þriggja milljarða andlitslyftingu

174
0
Vestmannaeyjar

Vestmannaeyjabær gengur nú í gegnum mestu fasteignauppbyggingu frá því eftir gos. Gömul fiskvinnsluhús í hjarta hafnarinnar breytast í íbúðir, skrifstofur og þjónustubyggingar um leið og bærinn fær andlitslyftingu. Rætt var við Elliða Vignisson, bæjarstjóra Vestmannaeyja, í fréttum Stöðvar 2.

<>

Hluti húsanna verður rifinn,  ný reist í staðinn og önnur endurbyggð. Bogadregna horn Ísfélagshússins verður áfram eitt af andlitum bæjarins, en allur Fiskiðjureiturinn er að fá nýtt hlutverk í fasteignaþróunarverkefni, sem bæjarstjórinn áætlar að kosti yfir þrjá milljarða króna.

Hluti gömlu fiskvinnsluhúsanna hefur verið rifinn en önnur verða endurbyggð. Stöð 2/Arnar Halldórsson.

Einkaaðilar standa að stærsta hlutanum í samstarfi við bæjarfélagið. Hér verða þrjátíu til fjörutíu nýjar íbúðir, sambýli fyrir fatlaða, skrifstofur þekkingarseturs Vestmannaeyja og ferðaþjónusta. Jafnframt er til skoðunar að þriðja hæð Fiskiðjuhússins verði innréttuð undir bæjarskrifstofurnar, að sögn Elliða.

„Þetta er kannski til marks um þessa breytingu sem orðið hefur á samfélaginu í Vestmannaeyjum; frá því að vera nánast hreinræktaður sjávarútvegsbær yfir í það að vera sterkur sjávarútvegsbær en með fleiri egg í körfunni,“ segir Elliði.

Gamla Fiskiðjuhúsið setur mikinn svip á hafnarsvæðið. Það gæti orðið ráðhús bæjarins. Stöð 2/Arnar Halldórsson.

Samtímis standa atvinnufyrirtækin í miklum framkvæmdum, bæði Vinnslustöðin og Ísfélagið. Bæjarstjórinn segir láta nærri að um 16 þúsund fermetrar séu í byggingu á þessu ári, til viðbótar við 14 þúsund fermetra í fyrra. Milli 60 og 70 íbúðir séu í smíðum upp á samtals sex þúsund fermetra.

„Þannig að álagið á byggingageirann hér í Vestmannaeyjum er mikið en það er ekki í fyrsta skipti sem Eyjamenn vinna langan vinnudag.“

Bæjarstjórinn segir Eyjamenn bjartsýna um framtíðina.

„Bæði er sjávarútvegurinn óvenju sterkur í Vestmannaeyjum um þessar mundir og sömuleiðis hefur ferðaþjónustan verið mjög kærkomin búbót.“

Heimild: Visir.is