Home Fréttir Í fréttum Vilja reisa íþróttahús á Vífilsstaðalandi

Vilja reisa íþróttahús á Vífilsstaðalandi

155
0
Mynd: gardabaer.is
Áætlað er að kostnaður við nýtt fjölnota íþróttahús í Garðabæ verði um 2,5-3 milljarðar króna. Þetta kemur fram í niðurstöðum starfshóps um undirbúning byggingar íþróttahússins. Minnisblað starfshópsins var lagt fyrir bæjarráð Garðabæjar á þriðjudag.

Samþykkt var á fundi bæjarstjórnar Garðabæjar þann 16. mars sl. að skipa fimm manna starfshóp til að vinna að undirbúningi íþróttahúss á svæðinu austan Reykjanesbrautar. Í tillögu að nýju aðalskipulagi er gert ráð fyrir uppbyggingu íbúðabyggðar á svæðinu.

<>

Knattspyrnuvöllur í fullri stærð

Leggur starfshópurinn til að tekið verði frá a.m.k.12 hektara svæði á Vífilsstaðalandi fyrir fjölnota íþróttahús, sem er ætlað að vera mikilvægur hluti af uppbyggingu íbúðabyggðar á svæðinu. Húsið á að rúma knattspyrnuvöll í löglegri keppnisstærð, auk þess að nýtast undir skólaleikfimi og til iðkunar á öðrum keppnis- og almenningsíþróttum. Þá gæti húsið hýst tónleika og ýmsa aðra viðburði.

Samkvæmt mati starfshópsins má áætla að kostnaður við íþróttahúsið verði um 2,5-3 milljarðar króna. Þó bendir starfshópurinn á að mikilvægt sé að framkvæma nánari kostnaðargreiningu, samhliða hönnun og útfærslu hússins.

Framkvæmdir dýrari en áður var talið

Hugmyndir um fjölnota íþróttahús í Garðabæ hafa lengi verið til umræðu. Haldinn var íbúafundur um húsið í mars 2015, þar sem meðal annars var rætt um vænlega staðsetningu þess. Á fundinum sagði Sigurður Guðmundsson, bæjarfulltrúi og formaður skipulagsnefndar, að áætlaður kostnaður við verkefnið væri 1,5-2 milljarðar. Starfshópurinn, sem nú hefur metið verkefnið, áætlar að framkvæmdirnar verði mun dýrari.

Í apríl sl. náðist samkomulag um kaup Garðabæjar á 202 hektara landi Vífilsstaða af ríkinu. Var kaupverðið tæplega 560 milljónir króna.

Heimild: Ruv.is