Home Fréttir Í fréttum „Borgarlínan leysir engan vanda ein og sér“

„Borgarlínan leysir engan vanda ein og sér“

376
0
Mynd með færslu Mynd: Reykjavíkurborg
Samgönguráðherra segir Borgarlínuna ekki leysa neinn vanda í samgöngumálum ein og sér. Skoða þurfi heildarkostnaðinn áður en ákveðið er hvort ríkið taki þátt. Fulltrúi í svæðisskipulagsnefnd höfuðborgarsvæðisins segir það kosta mun meira að fara ekki í Borgarlínuna.

 

<>

Borgarlínan, nýtt hraðvagnakerfi, var kynnt í vikunni og þar sást í stórum dráttum hvaða vagnarnir fara um höfuðborgarsvæðið. Endanlegar tillögur um leiðirnar eru væntanlegar síðsumars en kerfið er að erlendri fyrirmynd.

Borghildur Sturludóttir fulltrúi í svæðisskipulagsnefnd höfuðborgarsvæðisins segir verkefnið meðal annars snúast um meira val í samgönguleiðum milli svæða, betri nýtingu fjármuna og minni mengun. „Og líka það sem er mergur málsins í þessu að stuðla að því að við getum farið á milli þannig að það séu tíðar ferðir og við séum ekki háð því að lenda í umferðarteppum.“

Jón Gunnarsson samgönguráðherra segist að horft verði á þetta með jákvæðum augum en þátttaka ríkisins fari eftir heildarkostnaðinum. Gert er ráð fyrir að hann verði 60-70 milljarðar, en til samanburðar setur ríkið tíu milljarða í samgönguumbætur á landinu öllu. „Þetta eitt og sér leysir engan vanda. Það eru 92 þúsund bílar sem keyra um Ártúnsbrekkuna í dag, og Borgarlínan mun ekki fækka þeim. En hún kannski draga úr hraðanum á því að þeir fari yfir hundrað þúsund.“

Borghildur telur kostnaðinn hins vegar ekki vandamál. „Það kostar okkur mun meira að gera þetta ekki. Við höfum farið með annað eins nú þegar og mun hærri upphæð en þessa, í samgöngumannvirki.“

Jón segir að kortleggja þurfi hvað sé verið að leysa með borgarlínu og hvað þarf að gera. Borgarlínan komi ekki í staðinn fyrir samgönguumbætur. „Þetta er samhliða og er viðbót og það þurfum við að setjast yfir hvernig hægt er að fjármagna, miðað við það fjármagn sem við höfum til ráðstöfunar.“

Borghildur segir að hin leiðin hafi verið farin áður, að leggja höfuðáherslu á vegbætur. „Við höfum verið að þjóna bílnum. Það er kominn tími á að við skoðum það hvort við getum nýtt peningana mun betur til að eitthvað fyrir fjölbreyttari samgöngumáta.“

Heimild: Ruv.is