Home Fréttir Í fréttum Svæðið á Iðavöllum gamall tjörupyttur

Svæðið á Iðavöllum gamall tjörupyttur

93
0
Mynd: Jón Þór Víglundsson - RÚV
Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja var ekki kunnugt um urðunarsvæðið sem verktakar komu niður á við Iðavelli í Reykjanesbæ í gær. Mögulegt er að þar séu krabbameinsvaldandi efni, t.d. PSB og þungmálmar. Tjörupyttur var á svæðinu, sem var svo mokað yfir.

Verktakar í jarðvegsvinnu vegna byggingar atvinnuhúsnæðis á Iðavöllum komu í gær niður á járnarusl, netadræsur og annað rusl, og fundu líka tjöru. Þarna voru áður ruslahaugar á vegum bandaríska hersins. Framkvæmdir voru strax stöðvaðar.

<>

Verkfræðistofan Verkís tók sýni úr jarðveginum í morgun og mældi hann einnig með röntgentækjum. Meðal annars á að skoða hvort þrávirk lífræn efni og þungmálmar séu í jarðveginum. „Ef að þau eru í of miklu magni í umhverfinu þá geta þau valdið skaða, bæði á umhverfi og mannfólkinu, eins og til dæmis krabbamein,“ segir Rannveig Anna Guicharnaud umhverfis- og jarðverksfræðingur hjá fyrirtækinu.

Rannveig segir algengt að svona svæði finnist á uppgangstímum. „Mörg umhverfisvandamál sem við erum að fást við í dag, sérstaklega í kringum iðnað og fleira, koma til af því að fólk vissi ekki betur og var að farga án þess að hugsa hlutina lengra. Við erum oft að fást við vandamál fortíðarinnar í nútímanum.“

Og þetta er eitt af þeim vandamálum – mál sem Heilbrigðiseftirliti Suðunesja var ekki kunnugt um fyrr en í gær. „Við vitum núna að það er tjarna þarna, höfum séð það. Það var þarna víst einhver tjörupyttur sem var mokað yfir frá gamalli tíð,“ segir Ríkharður F. Friðriksson heilbrigðisfulltrúi hjá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja.

Hann segir að nú þurfi að fjarlægja járn, net og annan úrgang af svæðinu.  „Svo geta hugsanlega verið þungmálmar þarna, jafnvel PCB, en við höfum ekki fundið nein merki um spenna eða neitt slíkt sem hafa þá helst PCB. Við höfum ekki séð það þarna.“ Ríkharður segir að þessi úrgangur komi ekki eingöngu frá hernum heldur líka íbúum svæðisins.

Greining á jarðvegssýnunum verður sett í forgang og er niðurstöðu að vænta úr henni eftir um það bil viku.

Heimild: Ruv.is