Home Fréttir Í fréttum Byggja þarf upp frá grunni við Jökulsárlón

Byggja þarf upp frá grunni við Jökulsárlón

82
0
Jökulsá á Breiðamerkursandi

Hefja þarf uppbyggingu við Jökulsárlón frá grunni, en deilur undanfarinna ára hafa þýtt að þar hefur uppbygging setið á hakanum. Fyrstu skrefin eru að fjölga bílastæðum og byggja upp viðunandi salernisaðstöðu. Nauðsynlegar framkvæmdir strax í byrjun losa að öllum líkindum milljarðinn.

Eins og kunnugt er liggur fyrir Alþingi frumvarp um breytingu á lögum um þjóðgarðinn á Þingvöllum og lögum um Vatnajökulsþjóðgarð.

Vatnajökulsþjóðgarði hefur verið falin umsjá jarðarinnar Fells (Jökulsárlón). Þess er vænst að jörðin verði færð formlega undir þjóðgarðinn innan tíðar. Þar er fjallað um gjaldtöku innan þjóðgarðsins, nokkuð sem Landvernd hefur lagst gegn eins og kemur fram í umsögn við frumvarpið.

Þórður H. Ólafsson, framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs, segir að leggja þurfi í miklar framkvæmdir, lítið sem ekkert hafi verið gert þar sem engin samstaða var um hvernig svæðið yrði þróað áfram.

Þórður H. Jónsson, framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs.

„Þarna þarf að byrja frá grunni. Við munum byrja á endurskoðun á deiliskipulaginu sem er í gildi, og sú vinna er þegar hafin. Svo munum við leggja fram hugmyndir um uppbyggingu. Fyrir eru litlir sem engir innviðir,“ segir Þórður.

Þörfin á uppbyggingu er aðkallandi, enda fjöldi ferðamanna við Jökulsárlón að stefna hraðbyri á milljónina. Því verður uppbyggingin kostnaðarsöm – Þórður nefnir milljarð króna sem útgangsstærð en bílastæði og salerni til bráðabirgða verða byggð strax á þessu ári. Þá þarf að reisa við lónið gestastofu sem ræður við fjöldann.

„Þá eru ótaldir göngustígar og slíkt. Það er hluti af deiliskipulagsvinnunni og þeir geta þess vegna náð alla leið upp að jökli að austanverðu. En salernismálin vega þungt, enda allt of bágborin aðstaða.“

Spurður hvort gjaldtaka sé ekki nauðsynleg í ljósi þess hversu mikið verk er fyrir höndum svarar Þórður því til að hann telji svo vera.
„Þetta mun byggjast upp hraðar ef gjaldtaka kemur til, í stað þess að bíða eftir sérstökum framlögum á fjárlögum á hverju ári. Að mínu mati þarf þetta að gerast hratt, en engu að síður að vera vandað – enda er þessi staður svo sérstakur að þetta uppbyggingarstarf krefst þess að vandað sé til verka.“

Heimild: Visir.is

Previous articleOpnun útboðs: Endurbætur á Dalshrauni 6
Next articleReykjavíkurborg hafnar tilboð Ístaks hf. í verkefnið Breiðholtsbraut við Norðurfell