Home Fréttir Í fréttum Landvernd stefnir Landsneti vegna háspennulínu frá Kröfluvirkjun að Þeistareykjum

Landvernd stefnir Landsneti vegna háspennulínu frá Kröfluvirkjun að Þeistareykjum

114
0
Mynd: Rögnvaldur Már Helgason - RÚV
Landvernd hefur stefnt Landsneti vegna háspennulínu frá Kröfluvirkjun norður að Þeistareykjum. Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur fallist á flýtimeðferð vegna málsins. Framkvæmdir hafa ekki verið stöðvaðar. Mikil vonbrigði segir forstjóri Landsnets.

Undirbúningur framkvæmda vegna uppbyggingar iðnaðar á Bakka við Húsavík hefur staðið í meira en áratug. Hluti af þessum framkvæmdum er að leggja 33 kílómetra langa háspennulínu frá Kröfluvirkjun norður að Þeistareykjum, þar sem Landsvirkjun reisir nú jarðvarmavirkjun. Línan er umdeild, enda fer hún um nýleg hraun sem njóta sérstakrar verndar í náttúruverndarlögum.

<>

Náttúruverndarsamtökin Landvernd kærðu framkvæmdaleyfi Skútustaðahrepps, en í byrjun apríl komst úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála að þeirri niðurstöðu að leyfið stæðist lög. Þetta sættir Landvernd sig ekki við og ætlar að stefna Landsneti fyrir dóm. Samtökin telja verulega annmarka á umhverfismati og leyfi Landsnets fyrir línunni og vilja nýtt umhverfismat þar sem fleiri möguleikar séu skoðaðir á að flytja rafmagn milli Kröflu og Þeistareykja.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Landverndar segir að fyrst og fremst sé verið að horfa til jarðstrengja „og sneiða framhjá viðkvæmum náttúruverndarsvæðum, leggja jarðstrengi þar sem eru víðerni til dæmis og við teljum að þetta samræmist ekki umhverfismatslöggjöfinni að hafa ekki farið í þessa að skoða fleiri valkosti.“

Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets segir að stefnan sé náttúrlega mikil vonbrigði.  „Við erum eins og allir vita byrjaðir á framkvæmdum og framkvæmdir komnar á fullt og þetta er býsna seint í ferlinu sem þetta kemur upp.“

Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur fallist á flýtimeðferð í málinu. Framkvæmdir við línuna hafa ekki verið stöðvaðar.

„Verða einhverjar tafir út af þessu?  Það kann að vera að það verði  einhver töf út af þessu en tíminn verður að leiða það í ljós.“

Hæstiréttur hefur nýverið ógilt framkvæmdaleyfi fyrir háspennulínum á Suðurnesjum þar sem ekki hafa verið skoðaðir jarðstrengjakostir. Einnig hefur umhverfisráðuneytið beint því til Skipulagsstofnunar að endurskoða málsmeðferð vegna Blöndulínu 3 vegna þess sama.

Guðmundur í Landvernd segir að með því séu komin fordæmi fyrir samskonarmálum. „Þar sem jarðstrengir hafi ekki verið metnir og við teljum að náttúra Mývatns og Kröflusvæðisins eigi ekki að liða fyrir mistök fortíðarinnar.“

Guðmundur forstjóri Landsnet segir að málin séu ekki sambærileg.  „Þetta mál er allt allt annars eðlis heldur en Suðurnesamálið var.  Þar voru landeigendur að stefna okkur og unnu það í Hæstarétti í þessu máli þá er allt öðruvísi staðið að málum.“

Heimild: Ruv.is