Home Fréttir Í fréttum „Öllu kippt undan manni og ekkert eftir“

„Öllu kippt undan manni og ekkert eftir“

209
0
Mynd: Skjáskot/ Ruv.is
Hjón með þrjú börn sjá fram á að missa aleiguna vegna þess að lirfur veggjatítla hafa étið sig í gegnum timbur í húsinu þeirra. Að auki fannst mygla í þaki hússins. Fjölskyldan er nú heimilislaus.

Húsið var byggt árið 1905 en var enduruppgert undir lok síðustu aldar. Ingvar og Anna keyptu húsið fyrir um fimm árum og hafa verið að gera það upp að innan. Þegar parketið var slípað upp, komu í ljós litlar holur og rispur á gólfinu.

<>

Í ljós kom að þetta var eftir veggjatítlur. Veggjatítlur eru litlar, skammlífar bjöllur. Lirfur þeirra eru aftur á móti langlífar og hinir mestu skaðvaldar, sem éta sig inn í við og mynda með því holur og göt, sem eyðileggja viðinn. „Fyrst fengum við bara algjört taugaáfall. Og kölluðum til verkfræðing, húsasmíðameistara og meindýraeyði og ég veit ekki hvað, og komumst að því að það væri mögulega hægt að laga þetta. Þangað til að við sáum myglusveppinn uppi á lofti, uppi í risi.

Þá er þakið ónýtt líka þannig að húsið er bara ónýtt,“ segir Ingvar, sem sjálfur er húsasmiður.

Yngsta barn þeirra hjóna er einungis sjö vikna. Þau eru nú að leita að leiguhúsnæði, þar sem þau geta ekki búið í húsinu lengur. „Þannig að við búum hjá mömmu Ingvars eins og er, með henni í íbúðinni hennar, til bráðbirgða þannig að við höfum í rauninni engan stað til að vera á.

Með einn sjö vikna gamlan, einn sex ára og einn átján ára stöndum við bara allt í einu hérna með ekkert,“ segir Anna.

Óvíst um bætur

Alls óvíst er hvaða, ef nokkrar, bætur eru í boði. Dæmi eru um að bæjarfélög hafi tekið þátt í kostnaði við niðurrif húsa sem eru sýkt af veggjatítlu og um að Íbúðalánasjóður felli niður lán á slíkum húsum. „Svona veggjatítlumál og myglumál virðast vera ein af fáum málum sem einhvern veginn enginn ber ábyrgð á og enginn tryggir og enginn bætir nema maður fái styrki varðandi lánin, varðandi bæinn, eitthvað slíkt.

Ég veit ekki með trygginar en í öðrum stórum tjónum, eins og snjóflóðum, bruna og slíku, það eru auðvitað skelfileg mál en það er ákveðið ferli sem tekur við, en hér er ekkert ferli sem tekur við,“ segir Anna. „Viðlagasjóður virðist heldur ekki tryggja slík mál, þó að þetta mætti flokka sem náttúruhamfarir þá er þetta ekki innan þeirra skilgreininga.“

Þau segjast ekki vita hversu mikið af innbúinu þurfi að farga, þar sem veggjatítlur geta borist milli húsa. „Þetta er náttúrulega bara fallegt hús, sem við áttum og vorum búin að koma okkur ágætlega fyrir og það er bara öllu kippt undan manni og ekkert eftir,“ segir Anna. „Þetta er bara ógeðslegt. Það er bara búið að taka af manni aleiguna,“ segir Ingvar.

Mesta meinsemd

Mynd af veggjatítlu má finna á Facebook-síðunni Heimur smádýranna. Í stuttri umfjöllun um skordýrið segir að raunverulegar meinsemdir í húsum okkar séu fáar. Fjöldi þeirra verði sjaldnast svo mikill að tjón hljótist af. „Veggjatítlan verður hins vegar seint tekin í sátt. Hún telst án efa mesta meinsemdin sem getur hreiðrað um sig í húsum okkar og jafnvel eyðilagt þau ef hún fær til þess nægan tíma,“ segir á síðunni, sem Erling Ólafsson, skordýrafræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands hefur umsjón með.

Heimild: Ruv.is