Home Fréttir Í fréttum 300 milljónir í viðgerðir á Orkuveituhúsi

300 milljónir í viðgerðir á Orkuveituhúsi

268
0
Höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur, Orku náttúrunnar og Veitna
Orkuveita Reykjavíkur hefur þegar varið 300 milljónum króna í viðgerðir vegna raka og myglu á húsnæði Orkuveitunnar við Bæjarháls.

Í svari Eiríks Hjálmarssonar, upplýsingafulltrúa Orkuveitunnar, við fyrirspurn fréttastofu, kemur fram að þessi tala eigi eftir að hækka talsvert.

<>

Hversu miklu meira Orkuveitan þurfi að kosta til vegna viðgerða ráðist af niðurstöðu útboðs á því sem eftir standi í viðgerðum. Það útboð sé nú í gangi.

Aðspurður um hvort Orkuveitan sé að ígrunda málaferli vegna hugsanlegs galla á húsinu, segir Eiríkur að Orkuveitan sé að meta lagalega stöðu málsins.

Haustið 2015 varð vart rakaskemmda í vesturhúsi höfuðstöðva Orkuveitunnar. Eiríkur segir að skemmdir séu á öllum hæðum hússins. Talsvert sé enn óviðgert og vonir standi til að unnt verði að ljúka viðgerð á næsta ári.

Allt vesturhúsið hefur verið rýmt meðan á viðgerð stendur. Í tilkynningu Orkuveitunnar frá því í janúar segir að starfsfólki Orkuveitunnar, Orku náttúrunnar og Veitna, verði fundinn staður í öðrum hlutum höfuðstöðvanna. Gagnaveita Reykjavíkur og þrjú fyrirtæki sem leigt hafa aðstöðu af Orkuveitunni fluttu einnig úr húsinu.

Heimild: Ruv.is