Home Fréttir Í fréttum 300 milljónir í viðgerðir á Orkuveituhúsi

300 milljónir í viðgerðir á Orkuveituhúsi

158
0
Höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur, Orku náttúrunnar og Veitna
Orkuveita Reykjavíkur hefur þegar varið 300 milljónum króna í viðgerðir vegna raka og myglu á húsnæði Orkuveitunnar við Bæjarháls.

Í svari Eiríks Hjálmarssonar, upplýsingafulltrúa Orkuveitunnar, við fyrirspurn fréttastofu, kemur fram að þessi tala eigi eftir að hækka talsvert.

Hversu miklu meira Orkuveitan þurfi að kosta til vegna viðgerða ráðist af niðurstöðu útboðs á því sem eftir standi í viðgerðum. Það útboð sé nú í gangi.

Aðspurður um hvort Orkuveitan sé að ígrunda málaferli vegna hugsanlegs galla á húsinu, segir Eiríkur að Orkuveitan sé að meta lagalega stöðu málsins.

Haustið 2015 varð vart rakaskemmda í vesturhúsi höfuðstöðva Orkuveitunnar. Eiríkur segir að skemmdir séu á öllum hæðum hússins. Talsvert sé enn óviðgert og vonir standi til að unnt verði að ljúka viðgerð á næsta ári.

Allt vesturhúsið hefur verið rýmt meðan á viðgerð stendur. Í tilkynningu Orkuveitunnar frá því í janúar segir að starfsfólki Orkuveitunnar, Orku náttúrunnar og Veitna, verði fundinn staður í öðrum hlutum höfuðstöðvanna. Gagnaveita Reykjavíkur og þrjú fyrirtæki sem leigt hafa aðstöðu af Orkuveitunni fluttu einnig úr húsinu.

Heimild: Ruv.is

Previous articleVilja umbætur hjá Framkvæmdasýslu ríkisins
Next articleOpnun útboðs: Gangstéttarviðgerðir 2017