Home Fréttir Í fréttum Stefna að framkvæmdum við Rósasel í Reykjanesbæ í haust

Stefna að framkvæmdum við Rósasel í Reykjanesbæ í haust

246
0
Rósasel
– Bensínstöð, Nettóverslun og veitingastaðir í fyrsta áfanga
Enn er unnið að þróun þjónustukjarna undir nafninu Rósasel við Rósaselstorg, síðasta hringtorgið áður en komið er að Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli. Rósasel er í landi Sveitarfélagsins Garðs en Kaupfélag Suðurnesja hefur unnið að verkefninu undanfarin misseri.
Á aðalfundi Kaupfélags Suðurnesja, KSK, fyrir síðustu helgi var staðan við Rósasel kynnt fundarmönnum. Kom fram að Skipulagsstofnun hefur afgreitt breytingar á aðalskipulagi Keflavíkurflugvallar til Umhverfisstofnunar til afgreiðslu og Sveitarfélagið Garður er samhliða að undirbúa breytingar á aðal- og deiliskipulagi fyrir Rósaselssvæðið.
Verkefninu við Rósasel hefur verið skipt upp í fjóra áfanga. Í fyrsta áfanga er gert ráð fyrir 500 fermetra bensínstöð, 1000 fermetra Nettó-verslun og 1000 fermetra veitingahluta. Í öðrum áfanga er gert ráð fyrir 800 fermetra verslunarhluta og 1800 fermetra hóteli. Í þriðja áfanga verkefnisins er gert ráð fyrir 2800 fermetra stórverslun og í fjórða og síðasta áfanganum er svo húsnæði fyrir 3000 fermetra bifreiðaþjónustu.
Skúli Skúlason, stjórnarformaður Kaupfélags Suðurnesja, segir í samtali við Víkurfréttir að búist sé við að skipulagsmál á svæðinu verði frágengin í haust. Umhverfisstofnun hefur þrjá mánuði til að afgreiða málið frá sér og þá getur Sveitarfélagið Garður auglýst skipulagið en það ferli getur tekið tvo til þrjá mánuði.
Skúli segir að tímaáætlun fyrir verkefnið hafi ekki verið ákveðin. Tímalengd áfanga ræðst af eftirspurn og áhuga markaðarins. Í öðrum áfanga verkefnisins er meðal annars gert ráð fyrir 1800 fermetra hóteli og/eða skrifstofuhúsi. Ekki er kominn ákveðinn samstarfsaðili að þeim áfanga byggingarinnar. Hins vegar hafa nokkur veitingafyrirtæki sýnt því áhuga að vera með á veitingatorgi þjónustukjarnans.

Greint var frá því síðasta haust að gengið hafi verið frá samningum við fjóra aðila um rekstur í verslunar- og þjónustukjarnanum Rósaselstorgi sem áætlað er að rísi rétt við flugstöðina á Keflavíkurflugvelli. Á meðal þeirra eru Nettó með matvöruverslun, Subway, Pizza Hut, KFC, Taco Bell og Grill 66 með veitingastaði og Olís með eldsneytissölu og þjónustu. Auk fjölbreyttrar þjónustu við erlent og innlent ferðafólk þá er þess vænst að staðsetning kjarnans geti verið gátt að ferðamannastöðum á Reykjanesi og fjölgað þeim erlendu ferðamönnum sem staldra við á svæðinu.

<>

Heimild: Vf.is