Home Fréttir Í fréttum Umframeftirspurn eftir bréfum í Eik fasteignafélagi

Umframeftirspurn eftir bréfum í Eik fasteignafélagi

195
0
Garðar Hannes Friðjónsson

Hlutafjárútboði í Eik fasteignafélag lauk í gær og fengu um 1.200 fjárfestar að kaupa hlutabréf í félaginu fyrir samtals um 3,3 milljarðar króna. Heildareftirspurn í útboðinu nam hins vegar um 8,3 milljörðum króna, þar sem 2.100 fjárfestar óskuðu eftir að kaupa bréf í Eik, og var því talsverð umframeftirspurn eftir bréfum í félaginu.

<>

Sölugengi á hlut var 6,8 krónur og er markaðsvirði alls hlutafjár Eikar fasteignafélags því um 23,6 milljarðar króna. Í útboðinu bauð Arion banka til sölu 485 milljónir hluta, eða sem nemur 14% hlutafjár í félaginu. Áætlað er að viðskipti með bréf í félaginu muni hefjast í Kauphöll Íslands þann 29. apríl næstkomandi. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar í tilefni af lokun útboðsins.

Eik er þriðja fasteignafélagið sem verður tekið til viðskipta í Kauphöllinni. Hlutabréf í Reitum voru skráð í Kauphöllinna fyrr í þessum mánuði en fasteignafélagið Reginn hefur verið á hlutabréfamarkaði frá miðju ári 2012.

„Við þökkum það traust sem fjárfestar sýna félaginu sem fjárfestingarkosti og bjóðum nýja hluthafa velkomna. Eik fasteignafélag hefur vaxið á undanförnum árum með fjárfestingum í vel staðsettum eignum og markar skráning á Aðalmarkað Nasdaq Iceland mikil tímamót fyrir félagið. Það verður spennandi að takast á við ný verkefni með breiðari hópi hluthafa,“ segir Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri Eikar í tilkynningu.

Eignasafn Eikar er um 273 þúsund fermetrar og í heild eru um 88% af fasteignum félagsins á höfuðborgarsvæðinu.

Heimild: DV.is