Home Fréttir Í fréttum Myndi tefja eða eyðileggja verkefnið

Myndi tefja eða eyðileggja verkefnið

168
0
Mynd: Reykjavíkurborg
Björn Blöndal, formaður borgaráðs, segir að Reykjavíkurborg yrði skaðabótaskyld ákveði borgaryfirvöld að rifta samningi við félag Ólafs Ólafssonar um uppbyggingu í Vogabyggð. Slík ákvörðun myndi auk þess tefja eða eyðileggja verkefnið. Raddir hafa verið uppi um að borgin ætti að hætta við samning við Ólaf, eftir að skýrsla um sölu Búnaðarbankans kom út fyrr í vikunni.

„Hann væntanlega á einhvern rétt, ef til slíks kæmi og hann myndi þá væntanlega fá einhverja peninga fyrir að gera ekki neitt, leggja ekkert til innviðauppbyggingar. Þetta myndi tefja og jafnvel eyðileggja verkefnið i heild sinni,“ sagði Björn Blöndal í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun.

<>

10. mars staðfestu borgaryfirvöld samninginn við fasteignafélagið Festi, sem Ólafur er ráðandi í, um uppbyggingu á 332 íbúðum á lóð sem er hluti af Vogabyggð. Þar er gert ráð fyrir mikilli uppbyggingu á næstu árum; verkefni sem er gríðarlega mikilvægt fyrir borgina, segir Björn.  „Þarna er verið að semja við yfir eitt hundrað aðila um uppbyggingu sem skiptir miklu máli fyrir Reykjavíkurborg og við teljum að samningurinn við Festi sé mikilvægur, enda hljóðar hann upp á að fimmtungur íbúðanna verði til útleigu, og 5 prósent þeirra verði félagslegar íbúðir.“

Björn segist skilja þá reiði sem braust fram, þegar rannsóknarskýrsla um sölu Búnaðarbankans leiddi í ljós að Ólafur hefði beitt blekkingum við kaup á bankanum, en bendir á að með því að rifta samningum nú væri hann ekki sannfærður um að refsing kæmi niður á þeim sem helst skyldi.

Heimild: Ruv.is