Home Fréttir Í fréttum Rætt um samgöngur og uppbyggingu á Iðnþingi

Rætt um samgöngur og uppbyggingu á Iðnþingi

60
0
Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, tók þátt í pallborðsumræðum á Iðnþingi í dag.

Glímt við þjóðveginn – samgöngur og uppbygging var yfirskrift í pallborðsumræðum á Iðnþingi 2017 sem fram fór í Reykjavík í dag. Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, tók þátt í þeim og var þar rætt um langtímasýn og nauðsyn á uppbyggingu innviða og fjármögnun þeirra.

<>

Yfirskrift Iðnþings var Öflugir innviðir – lífæðar samfélagsins og eftir setningarávarp Guðrúnar Hafsteinsdóttur, formanns Samtaka iðnaðarins, og ræðu Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, var efnt til pallborðsumræðna um innviði, þ.e. vegakerfið, fjarskipti og raforkukerfið.

Ásamt Jóni Gunnarssyni tóku þátt í fyrstu umræðunni, um samgöngur og uppbyggingu, þau Ásthildur Sturludóttir, stjórnmála- og stjórnsýslufræðingur, Baldvin Einarsson, framkvæmdastjóri hjá Eflu og Gylfi Gíslason, framkvæmdastjóri Jáverk sem stýrði umræðunni.

Í inngangi sínum sagði ráðherra að mikil uppbygging væri framundan í samgöngukerfinu og kvaðst hann kynna á ríkisstjórnarfundi á morgun stöðuna varðandi samgönguáætlun og fjármögnun hennar. Hann minnti á að við samþykkt fjárlaga hefði verið bætt verulegum fjárhæðum við ýmsa uppbyggingu, meðal annars í samgöngukerfinu en vegna stórra og fjárfrekra verkefna sem ráðast þyrfti í á næstu árum væri nauðsynlegt að leita nýrra leiða til fjármögnunar. Væru það til dæmis verkefni á leiðum milli höfuðborgarsvæðisins og nágrannabyggða á Vesturlandi, Suðurlandi og Suðurnesjum. Þá stæði fyrir dyrum áframhaldandi uppbygging á Vestfjarðavegi um Gufudalssveit og víðar en í inngangi umræðunnar kom fram að uppsöfnuð fjárþörf til uppbyggingar í samgöngum væri kringum 65 milljarðar króna.

Heimild:Innanríkisráðuneyti.is