Home Fréttir Í fréttum Getur ekki verið alvara í því að byggja nýjan millilandaflugvöll

Getur ekki verið alvara í því að byggja nýjan millilandaflugvöll

52
0

„Mín skoðun hefur alltaf verið sú að hafa innanlandsflugið áfram í Vatnsmýrinni, Reykjavík er höfuðborgin okkar og þar er miðstöð stjórnsýslu og þjónustu fyrir landsmenn alla. Ef Reykjavíkurborg hins vegar úthýsir flugvellinum úr borgarlandinu blasir við að langskynsamlegasti kosturinn – og í mínum huga í raun eini kosturinn – er að flytja innanlandsflugið til Keflavíkur,“ segir Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra í samtali við Víkurfréttir um þær hugmyndir sem fram komu í fjölmiðlum um að færa innanlandsflugvöllinn frá Reykjavík og yfir í Hvassahraun. Ragnheiði finnst þær hugmyndir bæði fáránlegar og fjarstæðukenndar.

<>

„Hvort tveggja það að setja innanlandsflugið þangað og ekki síður þær hugmyndir að færa þangað millilandaflugið. Ég trúi því bara hreinlega ekki að mönnum geti verið alvara í því að leggja það til að byggja nýjan millilandaflugvöll fyrir tugi milljarða króna í einungis 15 mínútna fjarlægð frá Keflavíkurflugvelli? Ég skil ekki hver þörfin er – fyrir utan allt annað er á Keflavíkurflugvelli nægt landrými og möguleikar til þróunar fyrir flugvöllinn, eins og vel kemur fram í þeim framtíðaráformum sem kynnt hafa verið nýlega á vegum ISAVIA.“

Spurð um skoðun á fyrirhugaðri uppbyggingu hraðlestar milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar segir Ragnheiður það vera áhugavert verkefni eins og það var kynnt fyrir ári síðan, þegar menn reiknuðu út 40-60 milljarða króna samfélagslegan ávinning af verkefninu, án þess að til kæmi fjármögnun frá ríki og sveitarfélögum af skattfé. „Ef þeir útreikningar standast hef ég ekkert á móti því að þessar hugmyndir verði áfram skoðaðar, en ég tel ekki að ríkið ætti að forgangsraða sínum fjármunum í slikt verkefni.“

Heimild: Vf.is