400 milljónir verða settar í Hús íslenskra fræða við Suðurgötu á árinu. Stefnt er að því að bjóða verkið út í sumar og að framkvæmdir hefjist í haust. Þetta kom fram í erindi Halldóru Vífilsdóttur, forstjóra Framkvæmdasýslu ríkisins á útboðsþingi Samtaka iðnaðarins í dag.
Framkvæmdir við húsið hófust fyrst í mars 2013 en þeim var síðan hætt sama ár. Í erindi Halldóru kom fram að framkvæmdakostnaður á húsinu lægi ekki alveg fyrir en gert er ráð fyrir því að hann verði yfir þremur milljörðum. Sagði hún að nú stæði yfir endurskoðun á gögnum þar sem breytingar hafa verið gerðar á hönnun. „Það verður tekið meira tillit til gesta og sýninga. Anddyrinu og aðkomu verður breytt til þess að gera húsið meira fyrir alla landsmenn,“ sagði Halldóra.

Þá stendur einnig til að bjóða út endurgerð Þjóðskjalasafnsins við Laugaveg en áætlaður kostnaður er 245 milljónir. Verkið verður boðið út í mars eða apríl. Halldóra fór einnig yfir fyrirhugaðar viðhaldsframkvæmdir við Landbúnaðarháskólann að Reykjum sem nema 60 milljónum á árinu. Sagði Halldóra að að viðhald á skólanum hafi verið lítið sem ekkert í mörg ár og sum húsin illa farin. Stendur til að gera áætlun til nokkurra ára varðandi viðhald á húsunum.
Þegar það kemur að Háskóla Íslands verða utanhúsviðgerðir við Lögberg boðnar út í vor og verkið unnið í sumar. Áætlaður kostnaður er 25 milljónir. Einnig á að ráðast í endurnýjungar í byggingunni VR II, m.a.með nýjum rafmagnslögnum og nemur kostnaðurinn 15 milljónum. Verkið verður boðið út í mars, rétt eins og uppsetning nýs lofræstiskerfi í Öskju en það á að verja 35 milljónum í það.
Heimild: Mbl.is