Home Fréttir Í fréttum Arkitektar og skipulagsfræðingar gagnrýna hugmyndir Sigmundar Davíðs

Arkitektar og skipulagsfræðingar gagnrýna hugmyndir Sigmundar Davíðs

56
0

Stjórnir Arkitektafélags Íslands, Félags íslenskra landslagsarkitekta og Skipulagsfræðingafélags Íslands gagnrýna hugmyndir Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar um viðbyggingu við Alþingishúsið, nýja staðsetningu Landsspítalans og framtíð Reykjavíkurflugvallar í nýrri, sameiginlegri ályktun. Ályktunina senda félögin frá sér vegna ummæla Sigmundar um þessi mál.

<>

Sigmundur Davíð sagði nýlega að grípa þyrfti til varna fyrir Reykjavíkurflugvöll og koma í veg fyrir að borgaryfirvöld „grafi stöðugt undan flugvellinum og beiti brögðum til þess að losna við hann.“ Stjórnirnar þrjár segja að skiptar skoðanir séu um staðsetningu flugvallarinar og því sé mikilvægt að hvetja til hófstilltrar og málefnalegrar umræðu í stað þess að sá fræjum sundurlyndis. „Ummæli forsætisráðherra um að borgaryfirvöld beiti brögðum til að losna við Reykjavíkurflugvöll eru í því ljósi óheppileg sem og sú hugmynd að ráðherra fari með yfirstjórn skipulags- og mannvirkjamála á Reykjavíkurflugvelli. Að taka skipulagsvald frá sveitarfélögum er ekki skynsamlegt og ekki í anda þess að færa ákvarðanatöku í skipulagsmálum nær almenningi.“

Sigmundur hefur einnig lagt fram drög að þingsályktunartillögu um að byggja viðbyggingu við Alþingi eftir teikningum Guðjóns Samúelssonar. „Það er afar óeðlilegt að ætla að ákveða útlit byggingar með jafn afgerandi hætti og lagt er til í þingsályktunartillögu um aldarafmæli fullveldis Íslands sem birt var þann 1. apríl síðastliðinn,“ segir í ályktuninni um þessar hugmyndir. Þó mikilvægt sé að huga að sögulegu gildi umhverfis sé það veik framtíðarsýn að taka útgangspunkt í fortíðinni. „Mikilvægt er að uppbygging og hönnun endurspegli raunveruleika þess samfélags sem er til staðar hverju sinni. Því er mun nær að leggja alúð við að greina samhengi viðkomandi verkefnis svo hægt verði að fletta saman nýju og gömlu á auðmjúkan en skapandi hátt.“

Um hugmyndir Sigmundar Davíðs um nýja staðsetningu Landspítalans segja félögin að þó ákvörðun um staðsetninguna sé umdeild sé hún byggð á faglegri skipulagsgerð og hefur farið í gegnum lögbundna ferla. „Það er því afar gagnrýnisvert að setja jafn mikilvægt verkefni í uppnám með illa ígrunduðum pælingum um aðra staðsetningu. Því er vert að hafa í huga að orðum fylgja ábyrgð.“

Þá ræða stjórnirnar þrjár um hugmyndir um endurbyggingu Valhallar og segja að uppbyggingu í þjóðgarðinum á Þingvöllum þurfi að skoða í víðara samhengi. „Liggja þarf fyrir skýr framtíðarsýn um þjóðgarðinn í heild sinni í tengslum við náttúru, sögulegt umhverfi og heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna, áður en teknar eru ákvarðanir um einstakar aðgerðir,“ segir í ályktuninni.

Þá segja félögin þrjú að umræða um skipulag og arkitektúr geti verið snúin. „Í því ljósi viljum við bjóða stjórnvöldum upp á samtal um okkar byggða umhverfi, hvort sem það er stórt eða lítið, gamalt eða nýtt.“

Heimild: Kjarninn.is