Home Fréttir Í fréttum Þrefalt meira í framkvæmdir í Hafnarfirði

Þrefalt meira í framkvæmdir í Hafnarfirði

126
0
Hafnarfjörður
Stærstu sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu setja átta og hálfum milljarði króna meira í framkvæmdir á þessu ári en því síðasta. Hafnarfjörður ríflega þrefaldar framkvæmdafé sitt, en bæjarstjórinn segir það gert án lántöku.

Það er uppsveifla á Íslandi, og eitt skýrasta merkið er að sjá í byggingarkrönum sem sjást víða þessa dagana.  Árið stefnir í að vera töluvert meira framkvæmdaár en í fyrra, og það á ekki aðeins við um einkaaðila heldur líka hið opinbera, til dæmis við götur, skóla og leikskóla. Fréttastofa sendi fyrirspurn á sex stærstu sveitarfélög landsins til að spyrjast fyrir um hvað sett verði í framkvæmdir samanborið við síðasta ár. Fimm þeirra svöruðu. Tekið skal fram að tölur síðasta árs byggja á áætlunum.

<>

Í stærsta sveitarfélaginu, Reykjavík, aukast fjárfestingar um rúma fjóra milljarða. Þær voru tæplega 10 milljarðar á síðasta ári en verða 14,2 milljarðar á þessu ári.

Í Kópavogi voru tæpir 2 milljarðar settir í stofnframkvæmdir í fyrra en ríflega 2,5 milljarðar á þessu ári.

Framkvæmdafé Hafnarfjarðarbæjar ríflega þrefaldast – fer úr 925 milljónum í fyrra í 3,4 milljarða á þessu ári. Þar munar mest um milljarð í nýja grunnskóla og annað eins í nýtt hjúkrunarheimili.

Í Garðabæ voru settir rúmir 1,2 milljarðar í framkvæmdir í fyrra. Í ár verða það tæpir 1,7 milljarðar.

Nýframkvæmdir í Reykjanesbæ minnka hinsvegar lítillega – fara úr 215 milljónum í 205 milljónir, en sveitarfélagið hefur sem kunnugt er gengið í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu.

Hlutfallsleg aukning framkvæmda er langmest hér í Hafnarfirði sem kemur kannski einhverjum á óvart því bærinn hefur frekar verið í fréttum fyrir slakan fjárhag. En nú er allt breytt, segja þeir sem stjórna bænum, og hann hefur meira að segja efni á því sjálfur að fjármagna þessar framkvæmdir.

„Á síðasta ári þá tókum við engin lán og er það fyrsta árið a.m.k. frá árinu 2002 sem Hafnarfjörður tekur engin ný lán,“ segir Haraldur L. Haraldsson bæjarstjóri Hafnarfjarðar.

Haraldur segir fjárhagslega endurskipulagningu og ytri skilyrði hjálpa til við að ná þessari stöðu. Og það á að halda áfram á sömu braut. Skuldir verði greiddar niður og afkoma batni. „Það mun skila okkur því að við munum halda áfram að greiða niður skuldir og fjármagna framkvæmdir fyrir eigið fé.“

Heimild: Ruv.is