Home Fréttir Í fréttum Suðurverk bauð lægst í Dýrafjarðargöng

Suðurverk bauð lægst í Dýrafjarðargöng

131
0
Tilboð sem bárust í Dýrafjarðargöng

Tékkneski verktakinn Metrostav og Suðurverk áttu lægsta boð í Dýrafjarðargöng, upp á 8,7 milljarða króna, og reyndist það 630 milljónum undir kostnaðaráætlun. Dofri Eysteinsson, forstjóri Suðurverks, vonast til að hefjast handa síðsumars.

<>

Það ríkti spenna við tilboðsopnun enda er þetta langstærsta verkið á samgönguáætlun frá því Norðfjarðargöng voru boðin út fyrir fjórum árum. Fimm tilboð bárust en allir bjóðendur höfðu áður verið samþykktir í forvali.

Tilboð Metrostav og Suðurverks reyndist lægst, upp á nærri 8.700 milljónir króna, sem er 93 prósent af 9,3 milljarða króna kostnaðaráætlun. Næstlægsta og þriðjalægsta boð reyndust á pari við kostnaðaráætlun en tvö þau hæstu voru talsvert hærri.

„Lægsta tilboðið er um 93-94 prósent af okkar áætlun þannig að þetta er allt innan þeirra marka sem við höfum verið að miða við,“ sagði Hreinn Haraldsson vegamálastjóri í viðtali við Stöð 2.

Lægstbjóðendur, Metrostav og Suðurverk, eru þeir sömu og nú grafa Norðfjarðargöng, sem eiga að klárast í september. Forstjóri Suðurverks, Dofri Eysteinsson, segir henta vel að fara beint í Dýrafjarðargöng og þeir byrji á því að koma sér fyrir í Arnarfirði.

„Því þar verður byrjað að sprengja og grafa.“

– Og hvenær gerist það?

„Það verður í júlí, ágúst, september, – eitthvað svoleiðis – á þessu tímabili.“

En kannski óttast Vestfirðingar helst, í ljósi reynslunnar, að það verði hætt við allt saman. En er hægt að snúa við úr þessu?

„Ég held að það sé alveg 110 prósent öruggt að nú verður ekki aftur snúið. Enda hef ég ekki heyrt neinar áætlanir um það frá stjórnvöldum. Nú verður bara sett í gang síðar á þessu ári og framkvæmdir hefjast þá,“ svarar vegamálastjóri.

Áætlað er að verkið taki þrjú ár og að göngin verði tilbúin sumarið 2020. Göngin verða 5,6 kílómetra löng og stytta Vestfjarðaveg milli Ísafjarðar og Reykjavíkur um 27 kílómetra en megintilgangurinn er þó að leysa af fjallveginn um Hrafnseyrarheiði.

En verður auðvelt að bora í gegnum vestfirska bergið?

„Nú veit ég ekki. Það verður bara að koma í ljós. Það hefur ýmislegt komið upp á í fjöllunum hér á Íslandi,“ svarar Dofri Eysteinsson, en forstjórinn á það til að grípa sjálfur í vinnuvélarnar

Heimild: Visir.is