Home Fréttir Í fréttum Framkvæmdir við stækkun Búrfellsvirkjunar ganga vel

Framkvæmdir við stækkun Búrfellsvirkjunar ganga vel

233
0
Framkvæmdir í stöðvarhúshvelfingu. Mynd: Landsvirkjun

Framkvæmdir við stækkun Búrfellsvirkjunar fara vel af stað eftir stutt frí verktaka yfir jól og áramót. Á síðasta ári fór fjöldi starfsmanna á verkstað upp í um 150 manns og voru þeir langflestir á vegum byggingaverktakans ÍAV Marti. Þar af var um helmingur erlendir starfsmenn og voru Slóvakar þar fjölmennastir en þeir störfuðu einkum við jarðgangavinnu. Á næstu vikum bætast við starfsmenn á vegum framleiðanda vél- og rafbúnaðar, auk loka og þrýstivatnspípa. Má gera ráð fyrir að heildarfjöldi á verkstað fari upp í tæplega 200 manns með haustinu en eftir það fer starfsmönnum fækkandi á ný.

<>

Öryggismál í fyrirrúmi

Í byrjun desember hélt ÍAV Marti upp á hátíð heilagrar Barböru en hún er verndari þeirra sem vinna við jarðvinnu ýmiss konar, svo sem jarðgangagerð, malargerð, vegagerð og jarðyrkju. Haldin var hátíðleg athöfn í aðkomugöngum þar sem lofgjörð var flutt og líkneski heilagrar Barböru komið þar fyrir til verndar starfsmönnum við framkvæmd. Athöfnin var einstaklega falleg og til áminningar um það mikilvæga öryggisstarf sem er unnið á verkstað til að fylgja eftir núllslysastefnu sem Landsvirkjun leggur mikla áherslu á í sínum verkefnum.

Jarðgangaborunum að mestu leyti lokið

Byggingaframkvæmdir á verkstað hafa undanfarið einkum verið neðanjarðar en neðanjarðargreftri er nú að mestu lokið. Framkvæmdir sem voru við aðrennslisskurð eru komnar í vetrarstopp en þar er búið að moka út um 70% af áætluðu magni.  Undirverktaki ÍAV Marti, Ístak, hefur séð um þennan verkþátt og mun hann hefja  þar aftur störf í vor. Búið er að bora bæði kapal- og fallgöng en þau eru hvort um sig rúmlega 100 metrar á lengd. Borun þessara ganga var gerð með því að boruð var lóðrétt stýrihola niður á við og að því loknu um 6 m borkróna (vegna fallganga) fest við öxul neðst í göngunum og borinn dreginn upp á við þannig að borað var uppá við og efni sem til féll við borun féll niður á við og því síðan þaðan ekið út úr göngunum. Aðkomu- og frárennslisgöng eru nú komin í fulla lengd en það eru samtals um 650 metrar. Áfram verður unnið við gröft á  frárennslisskurði en sú vinna er ekki  krefjandi tímalega ein sog neðanjarðarframkvæmdirnar

Verkið er nokkurn veginn á áætlun en viðvarandi pressa er sökum þröngs tímaramma. Áætlað er að gangsetja virkjunina í lok maí 2018 en þá mun taka við frágangsvinna og landmótun á svæðinu.

Heimild: Landsvirkjun