Home Fréttir Í fréttum Ný Glerárvirkjun í byggingu

Ný Glerárvirkjun í byggingu

263
0
Glerárvirkjun mynd: Norðurorka
Nú eru hafnar af fullum krafti framkvæmdir við byggingu ríflega þriggja megavatta virkjunar í Glerá ofan Akureyrar. Raforkuframleiðsla á að hefjast í árslok en virkjunin á að geta séð 5.000 heimilum fyrir rafmagni.

Það er komið á fjórða ár síðan ákveðið var að ráðast í byggingu Glerárvirkjunar II, en samningar voru undirritaðir í september 2013. Fyrir er lítil virkjun í Glerá og lengi hefur verið rætt um að virkja ána enn frekar. Það er nú orðið að veruleika.

<>

Segir muna mikið um þessa virkjun

Framkvæmdir hófust í haust og nú er verið að grafa vatnspípur í jörð upp með Glerá. Þá var lagður vegur inn að stíflustæðinu og þar eru jarðvegsframkvæmdir hafnar. „Virkjunin verður 3,3 megawött og mun til dæmis, ef við teljum það í heimilum, þá myndi þetta nægja fyrir um 5000 heimili. Þannig að það munar heilmikið um þetta,“ segir Andri Teitsson, framkvæmdastjóri Fallorku, sem byggir Glerárvirkjun II.

Ströng skilyrði vegna viðkvæmrar náttúru

Stífla virkjunarinnar verður í 300 metra hæð yfir sjó, um sex kílómetra inni á Glerárdal. Sex metra há stífla og við hana eins hektara inntakslón. Þaðan fellur vatnið í pípum meðfram Glerá að norðanverðu og endar í stöðvarhúsi rétt ofan við brúna á Glerá við Hlíðarbraut. Á virkjanaleiðinni er viðkvæm náttúra Glerárdals og verndarsvæði að hluta. Andri segir því unnið eftir ströngum skilyrðum. „Já svo sannarlega og áður en að framkvæmdin var heimiluð þá gerðum við miklar rannsóknir á fuglalífi, nátturufari og svo framvegis. Og við erum undir skilyrðum um að ganga mjög vel frá svæðinu eftir framkvæmdina.“

Á annað hundrað manns við verkið í sumar

Áætlaður kostnaður er rúmur milljarður. Umsvifin í vetur verða með minna móti en framkvæmdirnar eiga að ná hámarki í sumar og næsta haust. „Þá geri ég ráð fyrir að það verði á annað hundrað manns að vinna við verkið,“ segir Andri. „Við vonumst til að geta hafið raforkuframleiðslu fyrir næstu jól.“

Heimild: Mbl.is