Home Fréttir Í fréttum Framkvæmdir á Blönduskóla hafa forgang

Framkvæmdir á Blönduskóla hafa forgang

116
0
Blönduskóli

Ef kostnaður við framkvæmdir á Blönduskóla verður meiri en fjárhagsáætlun ársins gerir ráð fyrir er líklegt að endurbótum á Félagsheimilinu á Blönduósi og seinni yfirlagningu á Sýslumannsbrekkuna svokölluðu verði frestað til næsta árs. Á fundi byggðaráðs Blönduósbæjar á mánudaginn var lögð fram verðkönnun í framkvæmdir við Blönduskóla og gefur hún til kynna að framkvæmdirnar gætu orðið dýrari en þær 25 milljónir króna sem sveitarstjórn Blönduósbæjar hafði ákveðið að verja til framkvæmdanna á þessu ári.

<>

Á fundinum fól byggðaráð tæknideild bæjarins að semja við verktaka á grundvelli gildandi fjárhagsáætlunar, sem er 25 milljónir eins og áður sagði, en leggur til að þeir fjármunir sem ætlaðir eru til endurbóta á Félagsheimilinu og til yfirlagningar á Sýslumannsbrekkunni verði nýttir til framkvæmda við Blönduskóla ef þess þarf.

Framkvæmdir við breytingar á Blönduskóla eru nú þegar hafnar. Lögð verður áhersla á að útbúa nýjan sal þar sem gamli íþróttasalurinn var og mun hann verða framtíðarmötuneyti skólans. Í gömlu búningsklefunum er gert ráð fyrir eldhúsi vegna matsalarins og svo smíðastofu. Í framtíðinni er svo gert ráð fyrir að rífa gömlu sundlaugina og koma fyrir heimilisfræði- og listgreinastofu þar.

Framkvæmdirnar eru háðar fjárveitingum en í byrjun er lögð áhersla á nýjan matsal. Blönduósbær hefur nú þegar selt og afhent Húnabraut 2 en húsnæðið var notað sem mötuneyti fyrir grunnskólabörnin.

Heimild: Húni.is