Töluverð umræða var um salernisaðstöðu fyrir erlenda ferðamenn síðasta ári og í ár spratt upp nýtt skilti, „Örnamaðurinn“ þar sem fólki var hreinlega bannað að ganga örna sinna, en það var sett upp víða um land.
Verkfræðistofan Efla var fengin til að gera úttekt á stöðunni. Og í vikunni gaf hún út þriðju og síðustu áfangaskýrsluna sína um salernisaðstöðu við þjóðvegi landsins og ferðamannastaði. Þar kemur fram að rekstrarkostnaður salerna við fjölsótta ferðamannastaði geti verið frá 25 til 45 þúsund krónum á mánuði en við minna sótta staði getur hann verið allt að 100 þúsund krónur á mánuði.
Í skýrslunni segir enn fremur að uppbygging varanlegrar salernisaðstöðu geti verið kostnaðarsöm. Þó sé hægt að sækja um styrk fyrir slíku til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða. Staðarhaldarar þurfi hins vegar sjálfir að kosta þrif, umhirðu, eftirlit og viðhald.
Efla bendir á að skortur á salernisaðstöðu sé ekki eingöngu afleiðing mikils fjölda ferðamanna heldur einnig mikillar óvissu um hver beri ábyrgð á því að veita slíka þjónustu og hvar. Úttektir sem hafi verið unnar á þessu ári sýni glöggt að mikil þörf sé á skjótum úrbótum.
Í samantektarskýrslu verkfræðistofunnar er síðan sextán vinsælum ferðamannastöðum forgangsraðað og þar er Jökulsárlón efst á blaði. Verja þarf á bilinu 175 til 330 milljónum til að byggja upp salernisaðstöðu þar en 460 þúsund ferðamenn skoðuðu lónið á síðasta ári. Samþykkt var á Alþingi fyrir jól að íslenska ríkinu væri heimilt að ganga inn í kaup á jörðinni Felli í Suðursveit sem á land að Jökulsárlóni. Kaupverðið er í kringum einn og hálfur milljarður.
Í öðru sæti er Goðafoss – þangað komu 300 þúsund ferðamenn á síðasta ári og verja þarf 100 til 200 milljónum í salernisaðstöðu þar. Dettifoss er í þriðja sæti og Seljalandsfoss í því fjórða. Samkvæmt útreikningum verkfræðistofunnar þarf að verja á bilinu 1,5 til 2 milljörðum í að bæta salernisaðstöðuna á þessum sextán stöðum.
Heimild: Ruv.is