Home Fréttir Í fréttum Hóteláform standa þótt leyfið hafi verið fellt úr gildi

Hóteláform standa þótt leyfið hafi verið fellt úr gildi

157
0
Teikning af hótelinu sem á að byggja.

Leyfi fyrir byggingu 59 herbergja hótels við Borgarbraut í Borgarnesi hefur verið afturkallað. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir að byggingarleyfið sé ekki í samræmi við landnotkun gildandi deiliskipulags.

<>

Geirlaug Jóhannsdóttir, formaður byggðarráðs Borgarbyggðar, segir úrskurðinn ekki breyta ákvörðun sveitarstjórnar um bygginguna.

„Í þessu ferli hafa komið fram nokkrar kærur og þá er viðbúið að það finnist einhverjir agnúar. Í sjálfu sér hafa íbúar fullan rétt til að leggja fram kærur og við berum fulla virðingu fyrir því. Við sníðum þá vankanta af og höldum okkar striki.“

Guðsteinn Einarsson, stjórnarformaður Borgarlands sem rekur verslunarmiðstöðina Hyrnutorg, segir að stjórnsýsla bæjarins virði hvorki lög né rétt.

„Mér sýnist bærinn ekki hafa virt fyrri úrskurði þannig að ég á ekkert sérstaklega von á því að hann virði þennan úrskurð. Síðast þegar þetta var dæmt ógilt, upprunalega byggingarleyfið frá því í október, gáfu þeir út nýtt byggingarleyfi.“

Guðsteinn bætir því við að 194 hafi gert athugasemdir við deiliskipulagið og útgáfu leyfisins í upphafi. „Þannig að það eru allavega 194 ósáttir. Ég held að það verði hins vegar miklu fleiri ósáttir þegar þeir átta sig á því hvers konar bákn þetta er.“

Geirlaug segir sveitarstjórn hafa komið til móts við ýmsar ábendingar íbúa.

„Við erum núna í skipulagsferli og erum að gera breytingar á aðalskipulagi og deiliskipulagi til þess að þetta geti orðið,“ segir hún og bætir því við að uppbyggingin sé mikilvæg þar sem vöntun sé á húsnæði fyrir íbúa yfir sextugu og að með uppbyggingunni fylgi auknar tekjur fyrir sveitarsjóð.

Heimild: Visir.is