Home Fréttir Í fréttum Landvernd krefst stöðvunar á byggingu hótels

Landvernd krefst stöðvunar á byggingu hótels

115
0
Hótel við Mývatn Mynd: Basalt arkitektar
Landvernd hefur gert þá kröfu að framkvæmdir við nýtt hótel Íslands á Flatskalla í Mývatnssveit verði stöðvaðar. Áður höfðu samtökin kært ákvarðanir Skipulagsstofnunar, Umhverfisstofnunar og Skútustaðahrepps um að heimila byggingu hótelsins.

Stöðvunarkrafan, sem hefur verið send til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, byggir á því að frárennsli á framkvæmda- og rekstrartíma sé ábótavant. Þess er krafist að framkvæmdir við skólphreinsistöð verði stöðvaðar, en bygging hennar var forsenda fyrir því að leyfi fékkst fyrir byggingu hótelsins.

<>

Ófyrirséðar afleiðingar

Sömuleiðis að framkvæmdirnar við hótelið sjálft verði stöðvaðar vegna frárennslis sem þeim fylgir. Það fari ekki í gegnum tveggja þrepa hreinsun, eins og krafa sé gerð um við Mývatn. Það sé ófyrirséð hverjar afleiðingarnar verði á lífríki Mývatns, bæði af framkvæmdinni sjálfri og einnig af rekstri hótelsins.

„Krafan byggist því á röksemdum er einkum lúta að óvissu um afleiðingarnar af því að hleypa frárennsli frá hótelinu á rekstrartíma þess út í vistkerfið og að hleypa nú frárennsli frá byggingarstað út í vistkerfið,” segir í kröfugerðinni. Vísað er til þess að mælingar hafi ekki farið fram á vatnsrennsli á svæðinu, en hótelið stendur nokkuð fyrir ofan Mývatn.

Kærðu útgáfu stöðuleyfis

Til viðbótar við þessa kröfu kærði Landvernd útgáfu Skútustaðahrepps á stöðuleyfi fyrir vinnubúðir á framkvæmdasvæðinu. Ekki hafi verið sótt um sérstakt leyfi fyrir þeim hjá Umhverfisstofnun eins og þurfi samkvæmt lögum um Mývatn.

Skútustaðahreppur hefur frest til 23. desember til að senda inn gögn og taka afstöðu til málsins.

Framkvæmdir áður verið stöðvaðar

Þessar kröfur koma sem fyrr segir í beinu framhaldi af kærum samtakanna vegna ákvarðanna Skipulagsstofnunar, Umhverfisstofnunar og Skútustaðahrepps um að heimila byggingu hótelsins. Einu sinni áður hafa framkvæmdir við hótelið verið stöðvaðar, en bygging þess hófst í vor. Í haust voru þær stöðvaðar að kröfu Skútustaðahrepps, en þá hafði fyrirtækið sem byggir hótelið ekki sótt um leyfi fyrir framkvæmdinni hjá Umhverfisstofnun. Það leyfi fékkst nokkrum vikum seinna.

Heimild: Ruv.is