Home Fréttir Í fréttum Semja við Byggingarfélag Gylfa og Gunnars um kaup á Miðlandi

Semja við Byggingarfélag Gylfa og Gunnars um kaup á Miðlandi

324
0

Byggingarfélag Gylfa og Gunnars hf. (BYGG) stefnir á byggingu tæplega 500 íbúða í Reykjanesbæ á næstu árum, en samkvæmt heimildum Suðurnes.net á Landsbankinn í viðræðum við byggingarfélagið um kaup á öllu hlutafé Miðlands ehf.. Miðland er fjárfestinga- og fasteignafélag sem stofnað var árið 1979 og hefur fjárfest í landi á Neðra-Nikel svæðinu í Reykjanesbæ. Félagið komst í eigu Landsbankans eftir að hafa verið tekið yfir af SpKef þar sem eigendur þess gátu ekki staðið við skuldbindingar sínar í kjölfar bankahrunsins.

<>

Að sögn Rúnars Pálmasonar upplýsingafulltrúa Landsbankans bárust fjögur tilboð í allt hlutafé fyrirtækisins í útboðsferlinu og á Landsbankinn nú í viðræðum við hæstbjóðanda. Rúnar svaraði ekki fyrirspurnum varðandi útboðsferlið, tímamörk eða bjóðendur. Gylfi Ómar Héðinsson, annar eigenda BYGG, sagði í samtali við blaðamann að málið væri í ákveðnu ferli og að hann gæti ekki tjáð sig um það að sinni.

Gert ráð fyrir allt að 485 íbúðum

Eign Miðlands er tvíþætt, samkvæmt auglýsingu Landsbankans, annars vegar eignarland sem samtals er um 34 hektarar og er skipulagt undir byggingu á allt að 485 íbúðum ásamt atvinnuhúsnæði (1,4 hektarar) og hins vegar samningur við Reykjanesbæ um að Miðland annist gatnagerð á svæðinu og hljóti tekjur af.

Deiliskipulag fyrir hluta byggingarlandsins er þegar samþykkt og gerir ráð fyrir byggingu á samtals 300 íbúðum. Gatna-og holræsagerð hefur verið unnin að hluta til á svæðinu og hægt er að hefja framkvæmdir á hluta lóðanna nú þegar. Samkvæmt gildandi Aðalskipulagi Reykjanesbæjar er gert ráð fyrir byggingu allt að 185 íbúða til viðbótar.

Hafa fengið um 100 milljarða afskrifaða

Byggingarfélag Gylfa og Gunnars var áberandi á verktakamarkaði fyrir hrun og hefur á undanförnum árum byggt yfir 2.400 íbúðir á almennum markaði. Fyrirtækið hefur einnig byggt fyrir Félag eldri borgara og Húsnæðisnefndir í Reykjavík og Kópavogi.

Eigendur fyrirtækisins, þeir Gunnar Þorláksson byggingarmeistari, og Gylfi Héðinsson múrarameistari, voru töluvert í fréttum á árunum eftir hrun, en samkvæmt þeim fréttum hafa um það bil hundrað milljarðar króna verið afskrifaðir af skuldum fyrirtækjanets þeirra.

Heimild: Sudurnes.net