Home Fréttir Í fréttum Norðfjarðargöng taka á sig mynd

Norðfjarðargöng taka á sig mynd

232
0
Norðfjarðargöng eru að taka á sig mynd en vegskálarnir sem liggja út úr göngunum eru nú fullsteyptir. Læsa þarf göngunum meðan verktakar fara í jólafrí en sjúkraflutningamenn fá að nota þau ef mikið liggur við.

Nú eru aðeins rúmir átta mánuðir þangað til Norðfjarðargöng eiga að vera tilbúin. Eskifjarðarmegin hefur ekki aðeins verið steyptur vegskáli heldur líka undirgöng fyrir umferð sem liggur inn í fjörðinn. Í Fannardal Norðfjarðarmegin er vegskálinn líka tilbúinn en unnið er að því að hylja hluta hans með jarðvegi. „Nú er allri steypuvinnu lokið og öllum vatnsklæðningum inni í göngum er lokið. Nú er verið að sprauta sprautusteypu yfir vatnsklæðningarnar sem er brunaöryggi fyrst og fremst. Síðan er verið að undirbúa gangabotninn fyrir burðarlög og það er verið að ljúka við lagnavinnu í neðsta hluta gangabotnsins. Utandyra er verið að fylla yfir vegskála og mala efni í burðarlög,“ segir Guðmundur Þór Björnsson sem sinni eftirliti með framkvæmdinni fyrir Hnit Verkfræðistofu.

<>

Gangamenn halda senn heim í jólafrí og þá verður vinnusvæðið mannlaust. Ekki þykir þorandi annað en að læsa göngunum á meðan enda hætt við að fólk reyni að stelast í göngin þegar enginn sér til. „Þetta er lokað vinnusvæði og alls ekki öruggt fyrir ókunnuga. Þetta getur verið beinlínis hættulegt. Það er ekkert símasamband þarna inni og ef eitthvað kemur fyrir þá er svartamyrkur og engin leið að bjarga sér. Þeim verður læst göngunum með talnalás sem að sjúkraflutningamenn munu fá aðgang að,“ segi Guðmundur. Göngin eiga að verða tilbúin fyrsta september á næsta ári.

Heimild: Ruv.is