Stjórn Faxaflóahafna ákvað á föstudag að seinka gildistöku samninga við Silicor Materials um hafnaraðstöðu og lóð á Grundartanga undir sólarkísilverksmiðju bandaríska fyrirtækisins. Forsvarsmenn Silicor fóru fram á lengri frest og hafa nú til 20. janúar en samningarnir áttu að taka gildi á fimmtudag. Þann 20. janúar fer fyrsta greiðsla lóðargjalda fyrirtækisins á gjalddaga en 100 milljarða króna verksmiðja þess er ekki fullfjármögnuð.
„Það var samþykkt að veita lengri frest og það sem tekur við er bið eftir frekari upplýsingum frá þeim. Forsvarsmenn Silicor komu á fundinn og gerðu grein fyrir stöðunni og niðurstaðan varð sú að fresta þessu til 20. janúar. Málið er ekki fullklárað en nú hafa þeir liðlega mánuð í viðbót til að koma með frekari fréttir hvernig sem svo stjórnin höndlar það þegar að því kemur,“ segir Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna
Heimild: Dv.is