Home Fréttir Í fréttum Árborg kaupir nýbyggingu undir félagsaðstöðu eldri borgara

Árborg kaupir nýbyggingu undir félagsaðstöðu eldri borgara

116
0
Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Árborgar og Leó Árnason, f.h. Austurbæjar, handsala samninginn. Ljósmynd/Árborg

Sveitarfélagið Árborg hefur samþykkt kaup á 962 fermetra viðbyggingu við Grænumörk 5, Selfossi undir dagdvöl og félagsaðstöðu eldri borgara. Kaupverðið er 492,7 milljónir króna.

<>

Austurbær fasteignafélag ehf. sem byggir aðstöðuna í samvinnu við JÁVERK mun samhliða þessu verkefni byggja íbúðir sem ætlaðar eru eldri borgurum en þær verða í sömu byggingu og félagsaðstaðan. Í fyrsta áfanga er gert ráð fyrir að 28 íbúðir fari í almenna sölu en með hverri íbúð fylgir bílastæði. Í síðari áfanga er áformað að bæta við 35 íbúðum til viðbótar.

Félagsaðstaða eldri borgara stækkar með þessu um 450 fermetra og dagdvöl sem nú er í Grænumörk 5 flyst í nýju bygginguna í mun rýmra húsnæði, eða um 470 fermetra.

Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist innan tíðar og að sá hluti byggingarinnar sem sveitarfélagið festir kaup á verði tilbúinn vorið 2018. Bæjarráð hefur skipað Gunnar Egilsson, D-lista, og Eggert Val Guðmundsson, S-lista, í byggingarnefnd.

Mjög brýnt var orðið að stækka félagsaðstöðuna, enda fjölgar eldri borgurum sem taka þátt í slíku starfi stöðugt og núverandi aðstaða löngu orðin of lítil. Þá var dagdvölin í afar óhentugu rými fyrir slíka starfsemi, en það mun nýtast sem hjónaíbúð þegar dagdvölin flytur.

Heimild: Sunnlenska.is