Home Fréttir Í fréttum Prima ehf reynir aftur við að byggja skóla

Prima ehf reynir aftur við að byggja skóla

628
0
Úlfarsárdalur

Umdeilt byggingarverktakafyrirtæki, Prima ehf, er aftur með lægsta tilboð í útboði Reykjavíkurborgar í gríðarlega stóra framkvæmd við byggingu nýs skóla í Úlfarsárdal. Fyrra tilboð fyrirtækisins þótti grunsamlega lágt og samkeppnisaðilar saka fyrirtækið um undirboð.

<>

Reykjavíkurborg hyggst ráðast í stóra framkvæmd í Úlfarsárdal og leitar nú að verktakafyrirtækjum til að byggja þar nýja byggingu fyrir Dalsskóla. Útboð var haldið fyrir nokkrum vikum og þótti bæði fulltrúum Reykjavíkurborgar og samkeppnisaðilum boð Prima ehf vera grunsamlega lágt. Það nam 79% af kostnaðaráætlun framkvæmdarinnar. Ámundi V. Brynjólfsson, á viðhalds- og framkvæmdasviði, sagði þá að boðið hefði kallað á sérstaka skoðun vegna þess hve lágt það var, en vegna formgalla á útboðinu þurfti að kalla aftur eftir tilboðum í verkið. Þá var skilmálum breytt og krafist meiri reynslu af fyrirtækjum sem vildu spreyta sig. Prima ehf hefur ekki verið í neinum stórum byggingaframkvæmdum á undanförnum árum. Fresturinn fyrir ný tilboð í skólabygginguna rann út í gær, fimmtudag, og var þá Prima ehf aftur með lægsta boð. Í þetta sinn nam það 87% af kostnaðaráætlun.

Prima ehf hefur sterk tengsl við verktakafyrirtækið Brotafl.
Brotafl átti langlægsta tilboðið í verkhluta nýs Icelandair hótels við Landsímareitinn sem gert var á árinu. Verkfræðistofan Efla annaðist útboð verksins í apríl og áætlaði kostnaðinn 92 milljónir króna. Tilboð Brotafls var 59 milljónir eða 65% af kostnaðaráætlun.

Sama dag og tilboðið var gert var Sigurjón G. Halldórsson, forsprakki Brotafls, hnepptur í gæsluvarðhald grunaður um stórfelld skattalagabrot. Á meðan hann var í varðhaldi tók bróðir hans, Guðjón Júlíus Halldórsson, við stjórnarformennsku í fyrirtækinu Prima ehf, og tók yfir verkefni Brotafls. Prima ehf var gamalt fyrirtæki sem hafði ekki verið starfandi í mörg ár. Starfsmenn Brotafls voru ráðnir til Prima og héldu áfram sömu vinnu. Verkstjóri Brotafls, Ómar Rafnsson, stýrði framkvæmdunum fyrir hönd Prima.
Héraðssaksóknari fer enn með rannsókn á meintum skattalagabrotum Brotaflsmanna en ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort gefin verði út ákæra.

Heimild: Frettatiminn.is