Home Fréttir Í fréttum Óttast að fá ekki borgað frá G&M ef þeir fara heim

Óttast að fá ekki borgað frá G&M ef þeir fara heim

104
0

<>
Pólskur starfsmaður verktakafyrirtækisins G&M segist óttast að fá ekki greidd launin sem fyrirtækið skuldar honum, ef hann fer aftur til Póllands. Launin voru um tíu evrur á tímann, líka fyrir vinnu um kvöld og helgar.

Starfsmenn verktakafyrirtækisins G&M segjast hafa verið settir afarkostir þegar fyrirtækið hætti skyndilega störfum í vikunni. Þeim hefur nú verið boðin vinna hjá nýjum verktaka, og aðalverktakinn LNS Saga hefur haldið eftir greiðslum til gamla undirverktakans, til að greiða vangoldin laun.

Starfsmenn G&M sem starfa í Reykjavík búa í húsnæði á vegum LNS Sögu í Reykjanesbæ á meðan þeir vinna að verkefnum á vegum fyrirtækisins. G&M skuldar flestum þeirra eins til tveggja mánaða laun. Að sögn ASÍ er það fyrir utan skuld fyrirtækisins vegna yfirvinnukaups.

Enginn starfsmaður fyrirtækisins sem fréttastofa ræddi við treysti sér til að koma fram opinberlega, en einn var tilbúinn til að koma í viðtal, með því skilyrði að hann myndi ekki þekkjast. „Okkur voru gefnir úrslitakostir. Ef við myndum samþykkja að fara yfir til hins pólska fyrirtækisins, Lambda, og klára verkefnin þá færi allt vel og þeir hjá LNS myndu borga okkur fyrir mánuðina tvo og Lambda greiða rest,“ segir hann. „Við féllumst hins vegar ekki á þetta. Vinnuskilyrði Lömbdu hentuðu okkur ekki og þá byrjuðu vandræðin. Þeir vildu ekki gefa okkur skriflega staðfestingu þess að við mundum fá peningana og eins ekki hverjar upphæðirnar yrðu og hvenær þær yrðu borgaðar. Við fengum ekki staðfest að við mundum fá peningana yfir höfuð.“ Hann segir að færri vinnustundir hafi verið í boði hjá Lambda, og þar af leiðandi minna kaup.

Fengu aldrei greidda yfirvinnu

Mennirnir höfðu skrifað undir ráðningasamning í Póllandi, og voru látnir afsala sér yfirvinnukaupi. Á ráðningarsamningi sem þeir skrifuðu undir við íslenskt útibú G&M er aftur á móti tilgreint yfirvinnukaup. Þeir fengu þó aldrei greitt samkvæmt því. „Við upphaf ráðningar var búið að ákveða vinnuskilyrðin og við unnum í samræmi við þau,“ segir starfsmaður G&M.

Á ráðningasamningnum eru þeir skráðir utan stéttarfélags, en að sögn stéttarfélagsins var þeim gert skýrt grein fyrir því af hálfu yfirmanna að það væri „ekki í boði“ fyrir þá að vera í stéttarfélagi ef þeir ætluðu að vinna hér. Fyrirtækjum er óheimilt að meina mönnum aðild að stéttarfélagi.

Skattar og iðgjöld sem dregin voru af starfsmönnum skiluðu sér ekki rétta leið. Skuld fyrirtækisins er því ekki eingöngu við starfsmennina heldur einnig við ríkissjóð.

Starfsmenn unnu um ellefu tíma á dag og átta tíma á laugardögum. Fyrir þetta fengu þeir greitt um tíu evrur á tímann, eða um 1300 krónur. „Við höfum mestar áhyggjur af því að fá ekki peningana ef við förum aftur til Póllands,“ segir starfsmaðurinn.

Heimild: Ruv.is