Home Fréttir Í fréttum Raforkuöryggi byggða vó þyngra en umhverfisáhrif

Raforkuöryggi byggða vó þyngra en umhverfisáhrif

50
0
GRAFÍK/STATNETT.

Lagning lengstu og dýrustu háspennulínu Noregs er hafin eftir margra ára átök. Miklu réð að þing Sama ákvað að leggjast ekki gegn línulögninni og taldi raforkuöryggi íbúa Norður-Noregs vega þyngra heldur en neikvæðar afleiðingar fyrir umhverfið.

<>

Það er víðar en á Íslandi sem tekist er á um háspennulínur. Í Noregi hafa um árabil staðið deilur um lagningu 513 kílómetra langrar háspennulínu milli Narvíkur og Hammerfest, sem ætlað er að treysta raforkuöryggi íbúa Norður-Noregs. Heildarkostnaður er áætlaður yfir 110 milljarðar íslenskra króna.

Nýja línan verður að mestu lögð samsíða eldri línu en hluti hennar verður rifinn niður í staðinn. Statnett, hið norska Landsnet, segir línuna nauðsynlega fyrir afhendingaröryggi í landshlutanum og til að mæta vaxandi raforkuþörf atvinnulífs. Hinn valkosturinn sé að framleiða rafmagn með brennanlegu eldsneyti.

Náttúruverndarsamtök, sem barist hafa gegn háspennulínunni, segja hins vegar megintilgang hennar að þjóna auknum gas- og olíuiðnaði í Norður-Noregi og benda á að hluti hennar fari um friðlýst svæði í hæsta verndarflokki. Þá hafa Samar sem stunda hreindýrabúskap einnig lagst gegn línunni, sagt hana ógna farleiðum dýranna. 

En þrátt fyrir mótmæli tók orku- og olíumálaráðherrann, Tord Lien, nýlega fyrstu skóflustungu að stærsta áfanga línunnar. Stjórnvöld höfðu þá fengið sterkt vopn í áróðursstríðinu þegar þing Sama samþykkti í fyrra að leggjast ekki gegn línulögninni, taldi orkuöryggi íbúa Norður-Noregs vega þyngra á vogarskálunum.

Úrslit málsins réðust þó í raun þegar Vatna-  og orkumálastofnun Noregs (NVE) taldi að umhverfisáhrif væru ásættanleg. Við heildarmat á verkefninu taldi stofnunin að jákvæður samfélagslegur ávinningur vegna háspennulínunnar væri mun meiri heldur en neikvæð umhverfisáhrif.

Kröfum um að línan yrði að hluta eða að öllu leyti lögð í jörð var hafnað. Stofnunin féllst á þau sjónarmið Statnett að jarðstrengur 420 kílóvolta línu yrði margfalt dýrari. Áhættan við jarðstreng var jafnframt sögð óásættanleg vegna tæknilegrar óvissu.

Heimild: Visir.is

Stjórnvöld komu þó til móts við áhyggjur Sama með því að breyta legu línunnar á tveimur svæðum.