Home Fréttir Í fréttum St. Jósefsspítali í Hafnarfirði liggur undir skemmdum eftir að hafa staðið ónotaður...

St. Jósefsspítali í Hafnarfirði liggur undir skemmdum eftir að hafa staðið ónotaður í fjögur ár

342
0
Mynd: Ásgeir Tómasson - RÚV
St. Jósefsspítali í Hafnarfirði liggur undir skemmdum eftir að hafa staðið ónotaður í fjögur ár. Bæjarstjórinn segir ástandið ekki gott, en bærinn vinni nú að því að kaupa húsið af íslenska ríkinu. Hann segir að það taki oft tíma að útkljá slík mál hjá hinu opinbera.

Húsakynni gamla St. Jósefssítalans í Hafnarfirði mega muna fífil sinn fegurri. Nokkuð er um steypuskemmdir á byggingunum, víða hefur verið krotað á þær og rúður verið brotnar. Fjallað er um málið í Fréttatímanum . Þar er haft eftir Pétri Ármannssyni arkitekt hjá Minjastofnun að húsið liggi undir skemmdum þótt ákveðnu lágmarksviðhaldi sé sinnt. Starfsemi var hætt í húsinu fyrir um fjórum árum.

<>

„Ástandið er náttúrulega ekki nógu gott. Húsið er búið að standa hér í nokkur ár án þess að hafa verið notað og það er farið að sjá á húsinu þannig að það er mikilvægt að við finnum lausn á þessum vanda sem við stöndum frammi fyrir,“ segir Haraldur Líndal Haraldsson bæjarstjóri í Hafnarfirði.

„Tekur oft tíma hjá hinu opinbera“

Spítalinn var byggður árið 1926 en arkitekt hans var Guðjón Samúelsson. Íslenska ríkið á 85% hlut í byggingunni á móti 15 prósenta hlut Hafnarfjarðarbæjar.

„Við erum í viðræðum við fjármálaráðuneytið um að bærinn eignist húsið og ég er bjartsýnn á að við förum að sjá fyrir endann á þeim viðræðum. Þá getum við farið að vinna í hvað við ætlum að nota húsið í í framtíðinni.“

Snúast þær viðræðum um kaupverð?

„Já meðal annars og svo væntanlega hvernig það kauðverð er greitt. Þessar viðræður standa yfir og ég vona að það fari að sjá fyrir endann á þeim.“

Hefur þetta ekki tekið of langan tíma? Húsið er að drabbast niður.

„Það er alveg rétt. En það tekur oft tíma hjá hinu opinbera að útkljá svona mál þannig að maður er vanur því. En ég veit að þetta mál mun fá farsælan endi og það er það sem við erum að vinna að.“

Haraldur segir að bæjarstjórn hafi samþykkt að þegar bærinn hafi náð eignarhaldi á húsinu verði skipaður starfshópur sem muni gera tillögu um hvað verði í byggingunni.

„Rætt hefur verið um samfélagslega þjónustu eða heilsutengda þjónustu. Eitthvað í þá veru,“ segir Haraldur.

Heimild: Ruv.is