Home Fréttir Í fréttum Miklar endurbætur á sundlaugarsvæði á Akureyri

Miklar endurbætur á sundlaugarsvæði á Akureyri

176
0

Bæjarbúar hafa trúlega flestir orðið varir við að heilmiklar framkvæmdir eru hafnar utandyra við Sundlaugar Akureyrar. Verið er að lækka svæðið nyrst þar sem áður var sólbaðssvæði til móts við umhverfi sundlauganna sjálfra og settar verða upp þrjár nýjar rennibrautir. Stiginn upp í þær verður stækkaður og yfirbyggður þannig að hægt verði að hafa þær opnar allan ársins hring en ekki þurfi að loka í frostum.

<>

Í staðinn fyrir vaðlaugina austast undir húsveggnum kemur tvískiptur pottur fyrir miðju svæðinu og er annar hlutinn nuddpottur. Búið verður til nýtt og rýmra svæði til sólbaða.

Að sögn Elínar H. Gísladóttur forstöðumanns Sundlauga Akureyrar var orðið löngu tímabært að endurnýja rennibrautirnar, plastið í þeim var orðið mjög slitið og þær gátu jafnvel talist hættulegar. Síðustu árin hefur þurft mikla viðhaldsvinnu við þær og svo fór að í ágúst síðasta sumar varð að loka stóru rennibrautinni fyrir fullt og allt.

27-10-2016-sundlaugarsvaedi-ak-gunnmynd

“Ég tel að þessar framkvæmdir verði mikil lyftistöng fyrir Akureyri og þá afþreyingu sem ferðamönnum er boðið upp á. Ég held líka að rennibrautirnar eigi eftir að höfða til krakka og unglinga á Akureyri og vona að ferðum þeirra eigi eftir að fjölga enn frekar í sund með tilkomu þeirra,” segir Elín H. Gísladóttir.

Heimild: Akureyri.is