Breytingartillögur hafi verið mikilvægar
Með nýrri samgönguáætlun ásamt fjölda breytingartillagna verður um það bil 100 milljörðum varið í samgöngur á næstu fjórum árum. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir er þingmaður Samfylkingarinnar í norðvesturkjördæmi, hún segir fyrstu framlagningu samgönguáætlunar hafa verið rýra í roðinu: „Þess vegna komu fram fjölmargar breytingartillögur og viðaukatillögur sem góðu heilli voru flestar samþykktar í dag […] Ekki síst það sem kom inn á síðustu metrunum, ríflega milljarður til viðhalds vega, héraðs- og tengivega.“ Alls voru tíu breytingartillögur samþykktar í morgun.
Fjöldi samgöngubóta í norðvesturkjördæmi
Ólína fagnar þeim fjölda framkvæmda sem ráðast á í norðvesturkjördæmi og nefnir Dýrafjarðargöng, bætur á vegi að Látrabjargi og í Árneshrepp á Ströndum og um Skógarströnd á norðanverðu Snæfellsnesi. Einnig er á samgönguáætluninni bættur vegur um Gufudalssveit. Sérstaklega fagnar Ólína samþykkt breytingartillögu hennar um að veita fé til undirbúnings jarðganga milli Skutulsfjarðar og Álftafjarðar: „Það er gríðarlega mikið hagsmunamál sem að skiptir Vestfirðinga gríðarlega miklu máli og er eitt mesta umferðaröryggismálið sem við stöndum frami fyrir á landsvísu.“
Samgönguinnviðir geti kiknað
„Það er gríðarlega mikið álag á samgönguinnviða okkar, ekki síst vegna mikillar fjölgunar ferðamanna á síðustu árum, og við verðum að gefa í ef við ætlum að halda í við þá þróun,“ segir Ólína, „Samgönguinnviðirnir kikna ef menn halda ekki vöku sinni.“ Hún segir samanburðarlönd verji fjórum sinnum meiru en Íslendingar í samgöngumál. Ólína gagnrýnir að samgöngur gleymist í heildarsamhenginu: „Samgöngurnar eru lykilatriði hvað varðar það að ná fram ýmsum áformum eins og sameiningu sveitarfélaga, sameiningu stjórnsýslustofnana, samlegð búsetu- og atvinnusvæða til dæmis.“
Heimild: Ruv.is