Húsasmiðjan opnar nýja verslun á Ísafirði næsta vor og hefur undirritað samning við Vestfirska verktaka um byggingu hins nýja húsnæðis við Æðartanga á Ísafirði. Greint er frá þessu á vefnum BB.is. Þar kemur fram að nýja verslunin verði rúmir 1.100 fermetrar og mun sameina starfsemi Húsasmiðjunnar á Ísafirði á einn stað en í dag eru verslunin og timbursalan aðskilin.
„Það er okkur hjá Húsasmiðjunni ánægjuefni að geta opnað nýja verslun á Ísafirði á næsta ári en með henni munum við bjóða Vestfirðingum enn betri þjónustu og meira vöruúrval og þannig taka virkan þátt í uppbyggingu á svæðinu. Þessi fjárfesting undirstrikar stefnu Húsasmiðjunnar um að veita góða þjónustu á landsbyggðinni þar sem rekstrargrundvöllur er til slíks,“ er haft eftir Árna Stefánssynin, forstjóra Húsasmiðjunnar. Í nýju Húsasmiðjuversluninni verður jafnframt verslun Blómavals og glæsileg timbursala.
Í fréttinni segir jafnfram að markmið Húsasmiðjunnar sé að bjóða upp á enn betri þjónustu og vöruúrval og styðja þannig við uppbyggingu á svæðinu, en núverandi Húsasmiðjuverslun opnaði á Ísafirði árið 2001.
Heimild: Mbl.is