Home Fréttir Í fréttum Fyrsti arkitektinn – Rögnvaldur Ágúst Ólafsson

Fyrsti arkitektinn – Rögnvaldur Ágúst Ólafsson

224
0
Húsavíkurkirkja Mynd: Byggingar.is

Nú í byrjun október gefur Hið íslenska bókmenntafélag út bókina Fyrsti arkitektinn – Rögnvaldur Ágúst Ólafsson og verk hans.

Rögnvaldur Ólafsson fæddist í Dýrafirði árið 1874, kom heim frá námi 1904 og varð ráðunautur Heimastjórnarinnar um opinberar byggingar 1906. Lífsverk hans er ótrúlegt en hann starfaði aðeins í um 12 ár því hann lést úr berklum 42 ára að aldri 1917 á Vífilsstaðahæli, sem hann hafði sjálfur teiknað og byggt.

Rögnvaldur er höfundur og ábyrgðarmaður um 150 húsa ef allt er talið, bæði sem arkitekt og sem ráðunautur stjórnarinnar. Rögnvaldur teiknaði 30 kirkjur, 30 hús í Reykjavík, um 70 barnaskólahús og sitt hvað fleira.

Saga hans hefur ekki verið sögð á bók áður og hann er á vissan hátt huldumaður íslenskrar listasögu.

Bókin var tekin saman þegar 140 ár voru liðin frá fæðingu hans en á næsta ári verða liðin 100 ár frá láti hans árið 1917. Meðal þekktustu verka Rögnvaldar eru Hafnarfjarðarkirkja, Keflavíkurkirkja, Húsavíkurkirkja, Bændaskólarnir á Hólum og Hvanneyri, Pósthúsið í Reykjavík og mörg glæsileg íbúðarhús við Reykjavíkurtjörn.

Rögnvaldur gekk í Iðnaðarmannafélag Reykjavíkur og sat sem fulltrúi þess í byggingarnefnd Reykjavíkur frá 1908 í tvö kjörtímabil. Hann samdi að líkindum lög um byggingareglugerðir sem samþykkt voru á Alþingi 1905 og samdi merka byggingasamþykkt fyrir Borgarnes árið 1914.

Hann fylgdist vel með nýjum hugmyndum í skipulagsmálum og flutti erindi um „garðbæjahreyfinguna“ sem átti miklu fylgi að fagna í Evrópu í byrjun 20. aldar. Hann kenndi húsateikningu við Iðnskólann frá 1906 og sat í skólanefnd hans 1909-1916 og hann var einn af stofnendum Verkfræðinga- félags Íslands árið 1911 og ritari þess til dauðadags.

Bókin um Rögnvald Ólafsson og verk hans er afrakstur Björns G. Björnssonar og 20 ára áhuga hans á ævistarfi Rögnvaldar.

Bókin er 240 blaðsíður með 280 ljósmyndum sem teknar voru sérstaklega fyrir bókina um land allt. Auk þess eru í bókinni yfir 100 húsateikningar og tugir annarra mynda bæði úr söfnum og einkaeign, ýmsar skrár og enskur úrdráttur.

Heimild: AI.is

Previous articleHornsteinn lagður að Þeistareykjavirkjun
Next articleSkoða möguleikann á að reisa leikskóla við Glerárskóla á Akureyri