Home Fréttir Í fréttum Verktakinn fékk 188 milljónir út af lekunum í Vaðlaheiðargöngum

Verktakinn fékk 188 milljónir út af lekunum í Vaðlaheiðargöngum

146
0

Verktakafyrirtækið Ósafl hefur fengið greiddar 188,5 milljónir króna í bætur vegna tafanna sem hafa orðið á gerð Vaðlaheiðarganga. Sáttanefnd Ósafls og Vaðlaheiðarganga hf. úrskurðaði í ársbyrjun 2015 að verkkaupanum bæri að bæta verktakanum hluta þess kostnaðar sem hann tók á sig vegna heita vatnsins sem hafði þá streymt úr sprungum Eyjafjarðarmegin í tæpa tólf mánuði. Nefndin hafnaði aftur á móti annarri bótakröfu sem Ósafl lagði fram fyrr á þessu ári.

<>

„Það fór annað mál í sáttanefnd á þessu ári en niðurstaða hennar var sú að verktakinn hefði enga kröfu,“ segir Ágúst Torfi Hauksson, stjórnarformaður Vaðlaheiðarganga, og vill ekki tjá sig frekar um bótakröfuna sem sáttanefndin hafnaði.

Verklok í apríl 2018

Stjórnendur Vaðlaheiðarganga gerðu verksamning við ÍAV og svissneska verktakafyrirtækið Marti Contractors um gerð ganganna. Dótturfélag þeirra, Ósafl sf., hefur séð um framkvæmdirnar. Samningsfjárhæðin nam 8.853 milljónum króna en framkvæmdir hófust sumarið 2013. Verkefnið er líkt og komið hefur fram langt á eftir áætlun og er gert ráð fyrir verklokum í apríl 2018 en ekki í desember 2016 líkt og upphaflega stóð til. Seinkunina má rekja til heitavatnssprungna sem fóru að opnast í febrúar 2015 og einnig flaums af köldu vatni Fnjóskadalsmegin sem hefur tafið verkið.

DV fjallaði um fyrri bótakröfu Ósafls í mars 2015. Valgeir Bergmann, framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga, sagði þá í samtali við blaðið að sáttanefndin hefði verið skipuð þremur sérfræðingum. Ósafl hefði tilnefnt einn, verkkaupinn annan, en þriðji sérfræðingurinn, og formaður nefndarinnar, var óháður deiluaðilum. Valgeir vildi þá hvorki gefa upp fjárhæð bótakröfunnar né niðurstöðu nefndarinnar.

Nam 6,4 milljörðum

Samkvæmt nýbirtum ársreikningi Vaðlaheiðarganga nam fjárfesting félagsins í göngunum alls 6,4 milljörðum í árslok 2015. Íslenska ríkið lofaði upphaflega 8,7 milljarða króna láni til verksins en ljóst er að framkvæmdin er komin um tvo milljarða fram úr áætlun. Vaðlaheiðargöng eru í eigu Vegagerðarinnar og Greiðrar leiðar ehf. Síðarnefnda félagið er í eigu Akureyrarkaupstaðar, KEA og Útgerðarfélags Akureyringa ehf.

„Við förum yfir þetta mjög reglulega og staðan í dag er þannig að við erum að sjálfsögðu langt umfram áætlun eins og hefur ítrekað komið fram. Hitinn Eyjafjarðarmegin fer hratt lækkandi og vinnuaðstæður þar eru fínar. Hrunið í Fnjóskadal er eitthvað sem menn hafa verið að fara í gegnum og það hefur tekið svolítinn tíma. Það að þetta hafi hrunið er búið að tefja okkur mikið. Það hefur verið góð framvinda undanfarnar vikur og ekkert sem bendir til þess að áætlanir muni ekki standast eins og staðan er núna. Við eigum vel innan við 20 prósent eftir af gangagrefti og óvissan er alltaf að minnka eftir því sem minna er eftir. Um leið og það verður gegnumslag þá minnkar óvissan gríðarlega mikið og verkið breytist úr gangagrefti í vegagerð,“ segir Ágúst Torfi.

Heimild: DV.is