Kostnaður við byggingu nýs þjóðarleikvangs í Laugardalnum er talinn munu nema um átta milljörðum króna. Hugmyndir eru uppi um yfirbyggðan leikvang sem myndi taka 20 þúsund manns í sæti. Stúka yrði allan hringinn og þakið opnanlegt.
Gert er ráð fyrir árstekjum upp á 250 til 300 milljónir króna, að því er kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag.
Knattspyrnusamband Ísland samdi við fyrirtækin Borgarbrag og Lagardére Sport um að gera hagkvæmnisathugun vegna uppbyggingar nýs leikvangs í Laugardal. Þeirri vinnu lauk nýverið og eru forsvarsmenn KSÍ að fara yfir skýrsluna og þau gögn sem henni fylgja.
Til greina kemur að byggja aðra þjónustu samhliða leikvanginum; verslanir, veitingastaði eða hótel. Það myndi auka tekjurnar til muna.
Einnig kemur til greina að KSÍ kaupi völlinn af Reykjavíkurborg en borgin á hann fyrir, utan tvær hæðir í nýju stúkunni.
Viðskiptablaðið hefur eftir heimildum að hlaupabrautin yrði fjarlægð og austurstúkan rifin.
Heimild: Mbl.is