Framkvæmdir upp á 7,7 milljarða króna verða boðnar út af hinu opinbera, Framkvæmdasýslu ríkisins og Ríkiseigna, á þessu ári. Að viðbættum framkvæmdum sem standa nú þegar yfir mun kostnaður opinberra frmakvæmda verða um 11,8 milljarðar á árinu. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu.
Fjárhæð framkvæmda sem kynntar eru til útboðs af ríkinu hefur hækkað jafnt og þétt frá árinu 2014. Árið 2013 var fjárhæðin tæplega 16 milljarðar, fór í 7 milljarðar árið 2014 og svo 7,5 í fyrra. „„Árið 2011 voru verkefni sem voru á áætlun sett í bið og skorið niður í framkvæmdum,“ segir Halldóra Vífilsdóttir, forstjóri Framkvæmdasýslu ríkisins. Velta vegna framkvæmda hafi svo tekið kipp milli 2014 og 2015. Á fyrstu sjö mánuðum ársins í ár hafi veltan verið um tveir milljarðar.
Hún segir þó að framkvæmdir sem kynntar séu til útboðs á árinu endurspegli ekki þann kostnað sem til fellur á þessu ári þar sem greitt sé fyrir verk í hlutfalli við framvindu þeirra.
Heildarfjárhæð verksamninga Framkvæmdasýslunnar hefur farið hækkandi, en árið 2013 var hún um 2,2 milljarðar króna, 3,5 milljarðar árið 2014 og um 4 milljarðar árið 2015. Á fyrstu átta mánuðum ársins er heildarfjárhæðin tæpir 1,6 milljarðar. „Þetta er að taka hægt við sér. Við vitum það líka að bygging nýs Landspítala er það verkefni sem mun verða ráðandi í framkvæmdum hins opinbera á næstu árum. Það er langstærst,“ segir Halldóra.
Í burðarliðnum eru einnig stór verkefni á vegum hins opinbera, eins og ný skrifstofubygging Alþingis, stækkun gestastofu á Þingvöllum og bygging hjúkrunarheimila.
Heimild: Kjarninn.is