
Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogsbæjar, sakar fjölmiðilinn Heimildina um að fara með rangfærslur í grein sinni um framkvæmdir við Kársnesskóla.
Í grein Heimildarinnar, sem Valur Grettisson skrifar, segir að kostnaður vegna framkvæmda við Kársnesskóla frá árinu 2021 sé kominn upp í 7,8 milljarða króna að núvirði með tilliti til verðbólgu samkvæmt opnu bókhaldi bæjarins. Þá sé fyrirséð að kostnaðurinn muni hækka þar sem uppgjöri á öllum verkþáttum er ekki lokið og að upphaflega útboðið hafi miðað við að kostnaður vegna uppbyggingar skólans yrði um 3,6 milljarðar og hefði átt að ljúka 2023.
Ásdís hefur tjáð sig um grein fjölmiðilsins með færslu á Facebook þar sem hún segir fréttaflutning Heimildarinnar gera litla tilraun til að halda réttum staðreyndum á lofti í málinu.
Riftun dæmd lögleg af gerðardómi
„Forsaga málsins er sú að árið 2017 var ákveðið að rífa Kársnesskóla og byggja nýjan skóla. Farið var í opinbert útboð í samræmi við stífar opinberar innkaupareglur – ítalskur verktaki uppfyllti skilyrðin og tók við verkinu.
Fljótlega varð ljóst að vanefndir verktakans voru alvarlegar og Kópavogsbær fór í aðgerðir til að bregðast við þeim.
Ekki var talið ráðlegt að rifta samningi við verktakann fyrr en allt annað hafði verið reynt til að láta verkið ganga. Hingað til hefur reynst erfitt af opinberum aðilum að rifta með lögmætum hætti slíkum samningum, ekki bara á Íslandi heldur á Norðurlöndunum,“ segir í færslu Ásdísar.
Þá hafi Kópavogsbær rift samningnum á árinu 2023 og bendir Ásdís á að riftunin hafi verið dæmd lögleg af gerðardómi. Jafnframt sé Kópavogsbær í málaferlum við ítalska móðurfélagið um að fá tjónið bætt að fullu.
Dregur fram sex rangfærslur
Ásdís dregur svo fram sex rangfærslur sem hún segir blaðamann greinarinnar sekan um.
„Í fyrsta lagi eru rangar kostnaðartölur bornar saman – ruglað er saman framkvæmdakostnaði við heildarkostnað verksins.
Í öðru lagi liggur endanlegur kostnaður ekki fyrir þar sem gerðardómur á eftir að taka fyrir kröfur Kópavogsbæjar.
Í þriðja lagi er ekki rétt að tafir vegna verksins megi rekja til þess að ítölsku verktakarnir skildu ekki hönnunargögn. Fljótlega í ferlinu var ljóst að vanefndir voru alvarlegar og Kópavogsbær fór því að undirbúa aðgerðir til að bregðast við þeim – sem endaði með riftun líkt og áður hefur komið fram.
Í fjórða lagi er Kópavogsbær að stefna móðurfélagi ítalska verktakans en ekki öfugt.
Í fimmta lagi tók Kópavogsbær verkið yfir eftir riftunina til að koma í veg fyrir frekari tafir og samdi við undirverktaka sem voru áður á verkinu. Það er því rangt að verktaki sem tók verkið yfir hafi farið á hausinn.
Í sjötta lagi er rangt að bæjarstjóri hafi vikið sér undan viðtali. Blaðamaður hafði samband í gegnum smáskilaboð þegar náðist ekki í mig í síma og þeim spurningum var svarað,“ skrifar Ásdís.
Þá segir hún ljóst að ákvörðun um að rifta samningi hafi verið það rétta í stöðunni. Annars hefði bærinn verið á verri stað.
„Í dag er risinn glæsilegur grunnskóli og kennsla hafin. Starfsfólk, nemendur og foreldrar geta heldur betur vel við unað og mikil ánægja ríkir með skólabygginguna.
Þetta eru staðreyndir málsins.“
Heimild: Mbl.is












