Home Fréttir Í fréttum Myndskeið: Ítölsk hús á barmi hengiflugs

Myndskeið: Ítölsk hús á barmi hengiflugs

8
0
Hrunið hefur undan bænum eins og sést á myndefni sem borist hefur frá Sikiley. Skjáskot/Local Team

Fleiri en þúsund manns hafa verið fluttir á brott á Sikiley eftir að fjögurra kílómetra langur klettur hrundi í óveðri og skildi hús eftir á barmi hengiflugs.

Land heldur áfram að gefa sig vegna þeirra rigninga sem gegnbleytt hafa Sikiley síðustu daga, segir bæjarstjóri Niscemi á suðurhluta eynnar í samtali við staðarmiðla.

Engin dauðsföll eða meiðsl hafa verið tilkynnt í kjölfar skriðunnar sem féll á sunnudag.

Tvö dekk í lausu lofti

„Ástandið heldur áfram að versna þar sem frekari hrun hafa verið skráð,“ segir bæjarstjórinn Massimiliano Conti í dag. Um 27 þúsund manns búa í Niscemi.

Myndskeið hafa sýnt mjóan, lóðréttan hluta klettsins falla niður, sem olli því að bygging sem þegar hafði rifnað í sundur hrundi enn frekar.

Framendi bíls sást við hliðina á henni, með tvö dekk hangandi í lausu lofti yfir klettabrúninni.

Skriðan lokaði veginum fyrir neðan sem liggur inn í bæinn.

Allir innan fjögurra kílómetra á brott

Conti segir yfirvöld á staðnum vinna með lögreglu, slökkviliði og almannavörnum að því að meta næstu skref, þar á meðal að hefja aftur skólastarf, sem var aflýst á mánudag.

„Ástandið er skelfilegt,“ segir bæjarstjórinn.

Almannavarnir Ítalíu segja að allir íbúar innan fjögurra kílómetra radíuss frá skriðunni hafi verið fluttir á brott.

Strendur Sikileyjar urðu fyrir barðinu á óveðrinu Harry í síðustu viku, sem olli skemmdum á vegum og íbúðarhúsum við sjávarsíðuna.

Forseti héraðsstjórnarinnar, Renato Schifani, hefur áætlað kostnað vegna tjónsins um 740 milljónir evra.

Heimild: Mbl.is