Félag eiganda GPG Seafood hefur fest kaup á 249 fermetra íbúð á Orkureitnum.
Félagið Austmar ehf. sem er í eigu Gunnlaugs Karls Hreinssonar, eiganda GPG Seafood, hefur fest kaup á 249 fermetra íbúð á hinum svokallaða Orkureit við Suðurlandsbraut í Reykjavík. Kaupverð íbúðarinnar, sem er á sjöundu og næst efstu hæð, nam 332,8 milljónum króna. Fermetraverð nemur því rúmlega 1,3 milljónum króna.
Seljandi er Safír byggingar, félagið sem sér um framkvæmdir á Orkureitnum. Í kaupsamningi kemur fram að áætlað sé að íbúðin verði afhend kaupanda í næsta mánuði eða fyrr.
Á heimasíðu Orkureitsins kemur fram að áfangi reitsins sé nú í sölu. Í D húsi, þar sem umrædd íbúð er, séu 133 vandaðar og vel útbúnar íbúðir sem henti jafnt einstaklingum og fjölskyldum af ýmsum stærðum.
Staðsetningin sé einstök en íbúðirnar snúi margar að hinum fallega Laugardal og aðrar inn í notalegan inngarðinn sem hannaður sé að evrópskri fyrirmynd. Í íbúðunum séu stærri gluggar en þekkjast venjulega sem gefi gott útsýni og veiti íbúum mikla dagsbirtu.
Sem fyrr sé vandað til hönnunar í hverju smáatriði, innan íbúða sem utan. Það sé Rut Kára sem stýri hönnun allra innréttinga þar sem áhersla sé lögð á hátt gæðastig í efni og öllum frágangi. Vandað sé einnig til hönnunar á sameiginlegum rýmum og leitast við að upplifun íbúa og gesta sé jákvæð um leið og gengið sé inn í húsið. Sameignin muni nýtast til að treysta samfélag þeirra sem þarna búa en líkamsræktarsalur og ýmis afþreying muni standa íbúum til boða á fyrstu hæð.
Heimild: Vb.is












