Rekstur gólfefnabúða hefur reynst stöðugur undanfarin ár með nokkuð stöðugum tekjuvexti og jákvæðri afkomu.
Parki er eftir sem áður stærsta gólfefnabúð landsins en rekstrarfélag Parka, Bitter ehf., velti 3,8 milljörðum króna í fyrra, sem er rúmlega 10% aukning frá árinu 2023 þegar tekjur námu ríflega 3,4 milljörðum. Hagnaður félagsins jókst sömuleiðis milli ára, nam 239 milljónum króna árið 2024 samanborið við 204 milljónir árið áður.
Næst stærsta gólfefnabúð landsins er Birgisson en tekjurnar námu tæplega 1,8 milljörðum króna í fyrra, sem er 7% aukning frá fyrra ári þegar tekjur námu tæplega 1,8 milljörðum. Félagið hagnaðist um 67 milljónir króna og dróst eilítið saman milli ára en árið 2023 nam hagnaðurinn 72 milljónum.
Álfaborg vermir þriðja sæti listans með ríflega 1,5 milljarða veltu í fyrra en tekjurnar jukust lítillega milli ára. Hagnaður félagsins nam 54 milljónum og dróst saman um 17 milljónir milli ára. Egill Árnason, sem velti tæplega 1,2 milljörðum í fyrra, er fjórða stærsta gólfefnabúð landsins en tekjur jukust um 20% milli ára. Félagið skilaði 78 milljóna króna hagnaði, sem er eilítið minna en árið 2023 þegar hagnaðurinn nam 85 milljónum.
Tekjuvöxtur var hjá nær öllum verslunum á listanum en mest var aukningin hjá Harðviðarvali, eða um 21%. Afkoma Harðviðarvals nam 113 milljónum í fyrra og jókst um 28 milljónir milli ára. Félagið velti 864 milljónum króna í fyrra, samanborið við 713 milljónir árið 2023.

Nánar er fjallað um málið í 500 stærstu, riti Frjálsrar verslunar. Áskrifendur geta lesið greininguna í heild hér og blaðið hér. Þá er hægt að kaupa ritið hér.
Heimild: Vb.is












