Home Fréttir Í fréttum Samþykktu uppbyggingu á þremur stöðum í borginni

Samþykktu uppbyggingu á þremur stöðum í borginni

20
0
Á svokölluðum Loftleiðareit er gert ráð fyrir lífsgæðakjarna sem sameinar íbúðir, þjónustu, heilbrigðis- og félagslega aðstoð ásamt sameiginlegum rýmum. Mynd/Reitir

Borgarráð Reykjavíkurborgar samþykkti í gær uppbyggingarsamkomulag við Reiti fasteignafélag um þróun og uppbyggingu við Suðurlandsbraut 56 (Metróreit), Nauthólsveg 50–52 (Loftleiðareit) og í Spönginni í Grafarvogi.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Reykjavíkurborgar.

Samningarnir eru liður í markvissri uppbyggingu borgarinnar þar sem áherslan er lögð á fjölbreytta búsetu, þjónustu og atvinnu, gæði borgarumhverfis og sjálfbæra þróun. Gert er ráð fyrir því að svæðin tengist öll borgarlínustöð.

Hönnun allra þriggja verkefnanna verður í samræmi við borgarhönnunarstefnu Reykjavíkur. Deiliskipulagsgerð stendur yfir eða er í undirbúningi og liggur því endanlegur íbúða- og fermetrafjöldi ekki fyrir.

Guðni Aðalsteinsson, forstjóri Reita, og Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarstjóri, á opnum kynningarfundi borgarstjóra um húsnæðismál í borginni. Ljósmynd/Reitir

Lífsgæðakjarni við Nauthólsveg

Á Nauthólsvegi 50–52, á svokölluðum Loftleiðareit, er gert ráð fyrir uppbyggingu lífsgæðakjarna sem sameinar íbúðir, þjónustu, heilbrigðis- og félagslega aðstoð ásamt sameiginlegum rýmum.

Á svæðinu er gert ráð fyrir 150–200 íbúðum af fjölbreyttri gerð, einkum fyrir fólk 60 ára og eldra, auk hjúkrunarheimilis og um 3.600 fermetra af atvinnu- og þjónusturými. Jafnframt er áformað að byggja leikskóla fyrir um 150 börn og grunnskóla fyrir um 120 börn, sem munu þjóna hverfinu í heild sinni.

Skipulag svæðisins leggur áherslu á torg, inngarða og græn svæði sem tengja byggðina saman í eina heild og mynda nýja hverfismiðju. Góð tenging verður við útivistarsvæði í næsta nágrenni, svo sem Öskjuhlíð og Ægissíðu.

„Lífsgæðakjarni við Nauthólsveg er einkar spennandi verkefni sem byggir á nýrri nálgun í húsnæðisuppbyggingu sem sameinar íbúðir, þjónusta, heilbrigðis- og félagsleg aðstoð ásamt sameiginlegum rýmum.” segir Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarstjóri.

“Markmiðið er að skapa umhverfi sem stuðlar að sjálfstæði, félagslegri virkni og lífsgæðum eldri borgara og annarra íbúa, með áherslu á fjölbreytt búsetuform.”

Uppbygging í Spönginni

Í Spönginni í Grafarvogi verður unnið að frekari þróun verslunar- og þjónustukjarna svæðisins. Uppbyggingin mun styrkja Spöngina enn frekar sem hverfismiðju með nýju íbúðarhúsnæði, aukinni þjónustu og bættum almenningsrýmum.

Gert er ráð fyrir að byggðir verði um 13.000 nýir íbúðarfermetrar, auk 1.400 fermetra af atvinnuhúsnæði sem bætast við þann verslunarkjarna sem nú þegar er til staðar og telur 9.600 fm. Heildarstærð svæðisins eykst þannig úr 9.600 fm í um 24.000 fm.

Nýtt íbúðahverfi og atvinnusvæði á Metróreit

Við Suðurlandsbraut 56, á svokölluðum Metróreit þar sem Suðurlandsbraut og Fákafen mætast verður unnið að uppbyggingu í takt við yfirstandandi breytingar í Skeifunni og endurskipulagningu Suðurlandsbrautar.

Í tillögunni er gert ráð fyrir um 99 íbúðum, eða um 9.700 fermetrum, í tveimur samtengdum 5–7 hæða byggingum, auk 1.500 fermetra af verslunar- og þjónusturými á jarðhæð. Gert er ráð fyrir torgi, borgargarði og almenningsrýmum, auk bílastæða í kjallara og á lóð.

Hlakka til að fara af stað

„Við fögnum þessum mikilvæga áfanga við þrjú metnaðarfull þróunarverkefni við Nauthólsveg, í Spönginni og á Metróreit sem hafa verið í bígerð um langt skeið.“ segir Guðni Aðalsteinsson, forstjóri Reita.

„Við erum full tilhlökkunar fyrir næstu skref við að láta verkefnin raungerast og leggja þannig okkar framlag á vogarskálarnar við að mæta vaxandi kalli eftir uppbyggingu sem gagnast samfélaginu.“

Heimild: Mbl.is