Home Fréttir Í fréttum Íbúar áhyggjufullir og óttast „nýtt gettó“ í Reykjavík

Íbúar áhyggjufullir og óttast „nýtt gettó“ í Reykjavík

7
0
Uppbyggingaráform eru í hæðunum fyrir ofan Úlfarsárdal.

Íbúar í Grafarholti og Úlfarsárdal hafa áhyggjur af risavaxinni byggð sem til stendur að reisa með hraði á reit ekki svo fjarri versluninni Bauhaus. Óttast íbúar að farið sé of geyst í málið og m.a. má sjá fólk lýsa áhyggjum af því að eins konar „Ghetto“ muni rísa þarna í ljósi mikils byggingarmagns á tiltölulega litlu svæði.

Þá lýsa margir yfir áhyggjum af aukinni umferð og álagi á innviði á meðan sumir benda á að bílastæðaskortsstefna borgaryfirvalda gæti gert það að verkum að umferð verði minni en ætla mætti í um tíu þúsund manna hverfi.

Reiturinn er nærri versluninni Bauhaus en frestur til athugasemda við breytingu á aðalskipulagi rennur út á miðnætti í kvöld.

Í líflegri umræðu um málið á Facebooksíðu Úlfarsárdals og Grafarholts má sjá skarpa andstöðu við þessa miklu uppbyggingu.

Sjöföldun á byggingarmagni

Bæring Gunnar Steinþórsson er frummælandi á þræðinum og setur málið upp í tölulegt samhengi. Hvetur hann fólk til þess að mótmæla breytingum á aðalskipulagi en samkvæmt fyrra skipulagi átti að reisa 562 íbúðir á reit þar sem nú eiga að rísa 4000 íbúðir. Nemur það sjöföldun á byggingarmagni á reitnum frá fyrra skipulagi.

Minnst tveir grunnskólar

Er á það bent að svæðið sem sé undir sé 59 hektarar eða álíka stórt og öll núverandi byggð í Úlfarsárdal en íbúafjöldinn verði meiri en í bæði Grafarholti og Úlfarsárdal. Ný tíu þúsund manna byggð kalli minnst á tvo grunnskóla og nær fjórföldun á fjölda leikskólabarna svo dæmi séu tekin.

Ekki hafi verið sýnt hvernig eigi að byggja innviði upp til þess að mæta þeirri þörf.

Heimild: Mbl.is