Home Fréttir Í fréttum Kostnaður við Brákarborg kominn í 3,2 milljarða

Kostnaður við Brákarborg kominn í 3,2 milljarða

21
0
Framkvæmdir við Brákarborg standa enn yfir þótt þeim eigi að vera löngu lokið. Byggingin stóðst ekki gildandi staðla um burðarþol. Morgunblaðið/Birta Margrét

Heildarkostnaður við endurbyggingu á leikskólanum Brákarborg er kominn yfir 3,2 milljarða króna miðað við verðlag dagsins í dag.

Þetta kemur fram í svari umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar við fyrirspurn Kjartans Magnússonar, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

Töluvert hefur verið fjallað um mál leikskólans. Í lok árs 2021 festi Reykjavíkurborg kaup á húsnæði kynlífstækjaverslunarinnar Adam og Evu, sem var til húsa við Kleppsveg 150-152, með það fyrir augum að nýta það til stækkunar leikskólans Brákaborgar.

Lokað vegna alvarlegs byggingargalla

Ráðist var í breytingar á húsnæðinu og samkvæmt svari umhverfis- og skipulagssviðs kostaði húsnæðið 865 milljónir króna á verðlagi dagsins í dag, en allar tölur í fréttinni miða við uppfært verðlag. Kostnaður við breytingar á húsnæðinu kostuðu 1,5 milljarða.

Til viðbótar bættist við kostnaður upp á 129,3 milljónir vegna jaðarsvæðis.

Leikskólinn flutti í nýtt húsnæði við Kleppsveg í ágústmánuði 2022.

Tveimur árum síðar komu í ljós alvarlegir byggingargallar á húsnæðinu þar sem byggingin uppfyllti ekki burðarvirkiskröfur samkvæmt staðli um burðarþol og jarðskjálfta. Hæfisskilyrði fyrir burðarvirkishönnun skólabyggingar voru ekki uppfyllt.

Í kjölfarið var leikskólanum lokað og starfsemin flutt í bráðabirgðahúsnæði í Ármúla. Kostnaður vegna flutnings leikskólans í Ármúla kostaði 195 milljónir króna. Þar ber leiguverð mestan kostnað eða 118 milljónir króna.

32 milljónir fyrir hvert leikskólapláss

Húsnæði leikskólans sem var tekið til notkunar í ágúst 2022 stendur enn tómt. Til stóð að starfsemi leikskólans myndi hefjast á ný í ágúst 2024. Framkvæmdir hafa dregist á langinn og er nú ekki stefnt á opnun fyrr en í mars 2026.

Kostnaður við viðbótar endurbæturnar á leikskólanum nema nú tæplega 500 milljónum króna.

Eins og áður segir er heildarkostnaður vegna verksins kominn yfir 3,2 milljarða króna. Samkvæmt heimasíðu leikskólans eru 100 börn í vistun á leikskólanum.

Ef fjölda barna er deilt niður á kostnað við endurbygginguna leikskólans er því kostnaður við hvert leikskólapláss 32 milljónir króna.

Leikskólinn hefur verið lokaður síðan síðsumars 2024. Morgunblaðið/Árni Sæberg

„Mesta klúður í byggingarsögu Reykjavíkurborgar“

Svar sviðsins var lagt fram á fundi umhverfis- og skipulagsráðs borgarinnar í gær. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram bókun á fundinum þar sem segir að endurbygging Brákaborgar sé „eitt mesta klúður í byggingarsögu Reykjavíkurborgar.“

„Vonandi tekst að ljúka framkvæmdum við Brákarborg án mikils viðbótarkostnaðar og gera leikskólann vel úr garði. Þó verður að spyrja að leikslokum í þeim efnum. Ljóst er að verkefnið er víti til varnaðar fyrir borgarkerfið en ekki síður borgarstjórn.

Upplýst hefur verið að á verktíma voru stjórnendur hjá borginni undir miklum pólitískum þrýstingi að ljúka framkvæmdum með hraði, sem kom niður á gæðum verksins. Ljóst er að sá þrýstingur hefur kostað reykvíska skattgreiðendur gífurlegt fé,“ segir í bókun borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

Brákarborg – Tímalína Kort/mbl.is

Svar vegna kostnaðar við Brákarborg

Heimild:  Mbl.is